Viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 14:05:19 (1111)

2003-11-04 14:05:19# 130. lþ. 20.96 fundur 126#B viðbrögð við hækkun lögboðinna iðgjalda tryggingafélaganna# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst rétt að taka fram að ekki liggja fyrir neinar nýjar hækkanir á iðgjöldum ökutækjatrygginga. Umfjöllun í skýrslu Neytendasamtakanna lýtur að hækkunum þeim sem áttu sér stað á árunum 1999 og 2000 og athugun Fjármálaeftirlitsins á þeim tíma. En núverandi athugun Fjármálaeftirlitsins lýtur hins vegar að stöðu vátryggingaskuldarinnar almennt og er hluti af því eftirlitsstarfi sem stofnuninni er fengið en lýtur ekki að tilteknum iðgjöldum.

Fram kom hjá hv. frummælanda að ekki lægi fyrir hvort greint yrði opinberlega frá þeim niðurstöðum sem fengjust. Það tengist í rauninni þeirri umræðu sem fór fram á síðasta ársfundi Fjármálaeftirlitsins. Þá var þeirri spurningu varpað fram hvort ástæða sé til að rýmka heimildir Fjármálaeftirlitsins til að greina frá framkvæmd eftirlits og niðurstöðum í einstökum málum. Snýr umræða þessi að því að sökum þagnarskyldu þeirrar sem hvílir lögum samkvæmt á starfsmönnum, forstjóra og stjórnarmönnum Fjármálaeftirlitsins þá getur Fjármálaeftirliltið ekki tekið þátt í opinberi umræðu um einstök mál eða málefni einstakra eftirlitsskyldra aðila.

Síðan langar mig, hæstv. forseti, að segja að síðustu að það ríkir samkeppni. Ekki er hægt að neita því að það ríkir samkeppni á vátryggingamarkaði þó að markaðurinn hafi vissulega ákveðin einkenni fákeppni. Tvö ný vátryggingafélög tóku til starfa á síðasta ári og nýlega hafa borist fréttir af breyttu eignarhaldi og rekstri Varðar á Akureyri. Vissulega hefur langur tími liðið frá því að rannsókn Samkeppnisstofnunar hófst á málefnum vátryggingafélaganna. En ég hef vissu fyrir því að þeirri rannsókn mun ljúka fyrir áramót.