Evrópufélög

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 14:08:02 (1112)

2003-11-04 14:08:02# 130. lþ. 20.3 fundur 203. mál: #A Evrópufélög# (EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Evrópufélög sem er á þskj. 214. Það er 203. mál þingsins. Með frv. þessu sem samið var í viðskrn. verða innleidd ákvæði reglugerðar EB-ráðsins nr. 2157/2001 frá 8. október 2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög, þ.e. evrópsk hlutafélög sem tekin hafa verið upp í EES-samninginn og veitt verður lagagildi hér á landi Auk þess eru í frv. ýmis ákvæði til fyllingar reglugerðinni.

Frv. tengist annað lagafrv. sem hæstv. félmrh. mun leggja fram vegna innleiðingar tilskipunar um viðbætur við samþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, svo og frv. viðskrh. um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna reglugerðarinnar.

Með reglugerðinni er félögum er starfa í fleiri en einu ríki á Evrópska efnahagssvæðinu gefinn sá valkostur að stofna eitt félag samkvæmt ákveðnum reglum þannig að þau geti þá í aðalatriðum starfað á grundvelli einna reglna um stjórn o.fl. í stað þess að þurfa að starfa á grundvelli reglna í mismunandi löndum þar sem félögin hafa útibú. Þetta leiðir til minni stjórnunarkostnaðar og skriffinnsku og eykur samkeppnishæfni félaga á efnahagssvæðinu. Unnt sé að setja Evrópufélög á stofn með samruna félaga, sameiningu útibúa, eignarhaldsfélagi eða breytingu á félagi. Sé eigi kveðið á um annað í lögum um Evrópufélög, þar á meðal Evrópufélagsreglugerðinni, gilda ákvæði laga um hlutafélög og eftir atvikum ákvæði annarra laga. Evrópufélög yrðu skráð hjá hlutafélagaskrá sem ríkiskattstjóri starfrækir.

Lögin um Evrópufélög yrðu ítarlegri en lög um evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög, eina tegund sameignarfélaga, en þau lög voru sett í tengslum við aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Að því er snertir hið tengda frv. félmrh. varðandi aðild starfsmanna að Evrópufélögum vil ég taka fram til yfirlits að við stofnun Evrópufélags þurfa að fara fram viðræður í samninganefnd um þátttöku starfsmanna í félaginu, í sérstakri fulltrúanefnd allra starfsmanna sem yrði aðskilin frá stjórn félagsins. Ef samkomulag næst ekki gilda ákveðnar meginreglur í viðauka við tilskipunina. Mismunandi reglur geta gilt eftir því hvernig aðild starfsmanna er háttað í þeim löndum sem stofnun Evrópufélagsins snertir. Aðild starfsmanna felst í því að stjórnendur félagsins gefa fulltrúum starfsmanna í fulltrúanefndinni reglulega skýrslur, hafa reglulegt samráð við þá og gefa þeim upplýsingar um nánar tiltekin atriði, m.a. uppsagnir.

Sé hugað að fortíð vil ég taka fram að hugmyndir um Evrópufélagið komu fram í Efnahagsbandalagi Evrópu um 1970. Málið tafðist hins vegar af ýmsum ástæðum fyrst og fremst vegna ágreinings um aðild starfsmanna og leystist ekki fyrr en á árinu 2001. Þegar lögum um hlutafélög var breytt og sérstök lög sett um einkahlutafélög í ársbyrjun 1995 vegna aðildar Íslands að sameignum um Evrópska efnahagssvæðið var í athugasemdum með viðkomandi frumvörpum gerð grein fyrir því að fyrir lægju í Evrópubandalaginu annars vegar drög að reglugerð um Evrópufélagið til að auðvelda samvinnu félaga í mismunandi aðildarríkjum og drög að tilskipun varðandi þetta félag er geymdi ákvæði um aðild starfsmanna, þá kallað atvinnulýðræði. Var þar lýst þremur meginleiðum um aðild starfsmannanna og tekið fram að erfitt væri að ímynda sér að Ísland gæti ekki valið einn af þeim möguleikum sem í boði væru ef önnur EFTA-ríki svo og EB-ríkin gætu það. Slík ákvæði taka enda aðeins til aðildar starfsmanna í Evrópufélögum.

Reglugerðin sem ætlunin er að lögfesta hér á landi geymir aðeins ákvæði um félagsrétt en gengur ekki inn á ýmis svið landslaga, svo sem skattalaga, samkeppnislaga, hugverkaréttar eða gjaldþrotalaga. Uppbygging reglugerðarinnar er með þeim hætti að í I. bálki eru almenn ákvæði. Þar kemur m.a. fram að lágmarkshlutafé í Evrópuélögum yrði 120 þús. evrur eða um 11 millj. kr. Lágmarkshlutafé í hlutafélögum hér á landi er 4 millj. kr. nú eða röskur þriðjungur.

Í II. bálki er fjallað um stofnun Evrópufélagsins með ýmsum hætti, í III. bálki um skipulag þess, m.a. einþætt og tvíþætt stjórnkerfi, í IV. bálki um ársreikninga og í V. bálki um slit félaga o.fl. Gert er ráð fyrir gildistöku reglugerðarinnar 8. október 2004 og yrði unnt að stofna Evrópufélög hér á landi eftir þann tíma samkvæmt frv.

Samráð hefur verið haft við fulltrúa hinna Norðurlandaþjóðanna um gerð lagafrv. en einkum hefur verið stuðst við sænskt lagafrv. Ekki er einungis um það að ræða að Evrópufélagsreglugerðinni sé ætlað að hafa lagagildi hér á landi samkvæmt frv. heldur er í því tekið á ýmsum atriðum þar eð reglugerðin gerir ráð fyrir heimild ríkja til þess að ákveða ýmis atriði sjálf og jafnframt í sumum tilvikum skyldu þeirra til að gera slíkt. Grundvallarreglur Evrópufélagsreglugerðarinnar skapa töluverða einsleitni í löggjöf ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þótt um ýmis frávik sé að ræða vegna áðurnefndrar heimildar og skylduákvæða.

Frv. skiptist í sex kafla, þ.e. almenn ákvæði, stofnun, skráningu, flutning skráðrar skrifstofu milli ríkja, skipulag og önnur ákvæði.

Hæstv. forseti. Verði frv. þetta til laga um Evrópufélög óbreytt að lögum telur fjárlagaskrifstofa fjmrn. að frv. hafi ekki kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.