Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 14:14:56 (1113)

2003-11-04 14:14:56# 130. lþ. 20.4 fundur 19. mál: #A friðlýsing Jökulsár á Fjöllum# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir. Um er að ræða 19. mál þingsis á þskj. 19. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Friðlýsingin taki til alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum að Kreppu og öðrum þverám meðtöldum með náttúrulegum rennslisháttum, þar sem hvers kyns röskun og mannvirkjagerð er bönnuð. Sérstaklega verði hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing Jökulsár á Fjöllum skuli tengjast núverandi þjóðgarði í Jökulsárgljúfrum og fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og stofnun frekari þjóðgarða eða verndarsvæða norðan jökla.``

Það er rétt að taka fram, herra forseti, að hér er um endurflutta tillögu að ræða, þ.e. að tillagan var sýnd á hinu stutta vorþingi sem hér fór fram og stóð í tvo eða þrjá daga eftir kosningar í maímánuði sl.

Það verður tæpast um það deilt að Jökulsá á Fjöllum og náttúrufyrirbæri eins og Dettifoss og Jökulsárgljúfur, að meðtöldu öllu hinu stórbrotna umhverfi árinnar allt frá upptökum Jökulsár við jaðra Dyngjujökuls og Brúarjökuls og niður til sjávar í Öxarfirði, er einstæð náttúrugersemi. Fyrst skal auðvitað frægan telja Dettifoss sjálfan, sem oft er titlaður aflmesti eða voldugasti foss í Evrópu, og síðan hin miklu gljúfur, Hafragilsfoss og Selfoss og þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum að meðtöldu Ásbyrgi. Þá lýkur Jökulsá ævi sinni með því að flæmast um sandana fyrir botni Öxarfjarðar og hefur þar grafið í sand eða setlög eitt af háhitasvæðum landsins. Ekki er umhverfi árinnar hið efra síður stórbrotið þar sem upptakakvíslar Jöklu eða Jökulsár flæmast um sandana norðan Dyngjujökuls og vestan Kverkfjalla með Kverkfjallarana og Krepputungu austan við. Trölladyngja, Dyngjufjöll og Herðubreið með Ódáðahraun að baki skapa stórbrotna umgjörð í vestri. Undan Brúarjökli koma svo Kverká og Kreppa og sameinast Jöklu norðan Krepputungu eftir að hafa runnið um stórbrotið land á leið sinni til móðurelfunnar.

Það má segja um svæðið í heild, herra forseti, að Jökulsá á Fjöllum sé með þverám sínum bandið sem tengir saman og gerir að einni heild eitthvert stórkostlegasta náttúrufyrirbæri jarðarinnar þar sem er samspil elds og ísa, landmótun og jarðfræði sem einkennist af mikilli eldvirkni og móbergsmyndunum, m.a. frá ísaldartímum sem eiga sér engan líka í veröldinni. Hinar miklu dyngjur, móbergshryggir og móbergsstapar eru einstök jarðfræðifyrirbæri og hvergi finnanleg með sambærilegum hætti og þau eru á Íslandi og þá einkum og sér í lagi á þessum slóðum. Meðfram Jökulsá og í farvegi hennar, og ekki síst í gljúfrunum hið neðra, er að finna ummerki um einhver gríðarlegustu hamfarahlaup sem þekkt eru í sögu landmótunar, a.m.k. hér á landi og jafnvel þó víðar væri leitað. Síðan er það öll áferð þessa stórbrotna svæðis, allt frá úfnum hraunum, söndum og eyðimörkum og yfir í einstakar gróðurvinjar eins og Hvannalindir, Fagradal og Arnardal, Herðubreiðarlindir, Grafarlönd og fleiri slík, sem liggja að eða í nágrenni við ána, dýralíf og vatnafar og þannig mætti áfram telja.

Það má minnast þess t.d. að farið var á þessar slóðir með geimfarana tilvonandi þegar Bandaríkjamenn undirbjuggu fyrstu tunglferðir sínar vegna þess að hvergi, a.m.k. í viðráðanlegri fjarlægð frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, þótti að finna landslag sem gæti með sama hætti minnt á eða jafnast við aðstæður sem talið var að þeir ættu í vændum á tunglinu þegar þeir færu þar að stíga fyrstu skref mannsins, sem samkvæmt bestu vitund var nú gert þó að vissulega séu til þær kenningar að menn hafi aldrei farið. En það er nú önnur saga.

Það er ekki aðeins umhverfið, landið og náttúran umhverfis Jökulsá á Fjöllum sem hluti af stórbrotinni landslagsheild, sem gefa þessari á mikið gildi, það er einnig vatnasviðið sjálft, stórbrotið samspil jökulvatna og lindáa og rennslishættir þessara vatna. Það hefur að vísu, herra forseti, ekki farið mikið fyrir því á Íslandi fyrr en þá hin allra síðustu árin að menn hafi rætt um gildi vatnsfallanna sem slíkra og náttúrulegra rennslishátta þeirra í sjálfu sér og verndargildi þess, en sú umræða er vel þekkt úr nálægum löndum, m.a. vegna þess að þar hafði víða verið raskað rennslisháttum fallvatna löngu, löngu áður, t.d. vegna mannvirkja eins og skipaskurða, stíflumannvirkja og vatnaflutninga til áveitu eða hins vegar jafnvel með mannvirkjum sem tengdust timburfleytingum. Hin síðari ár eru það hins vegar fyrst og fremst virkjanir, uppistöðulón og vatnsmiðlun eða vatnaflutningar vegna virkjana sem raskað hafa rennslisháttum og aðstæðum fallvatna.

Það er rétt að menn hafi það í huga að ef svo heldur fram sem horfir þá verða innan fárra ára nokkur og reyndar flest af stærstu jökulvötnum landsins miðluð og náttúrulegum rennslisháttum þeirra hefur þá verið gjörbreytt. Þetta á við um Þjórsá og Tungnaá, sem heita má að séu fullmiðlaðar. Þetta á við um eða kemur til með að eiga við um Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal og jafnvel fleiri fallvötn. Í ljósi þessa hlýtur verndargildi Jökulsár á Fjöllum, að Kreppu og Kverká meðtöldum, með óbreyttum rennslisháttum, þar á meðal sumarhlaupunum og öðru, að teljast enn þá meira en ella. Það eru með öðrum orðum, herra forseti, að verða síðustu forvöð að taka þá ákvörðun að bjarga einni af stóru og korgugu jökulánum.

Þess má geta að á umhverfisþingi sem haldið var fyrir nokkru síðan benti Sveinbjörn Björnsson, sem fer fyrir vinnu stjórnvalda að gerð rammaáætlunar, mönnum á þá staðeynd að í ljósi krafna álframleiðenda um sífellt stærri einingar væri ljóst að að Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fljótsdal fullvirkjaðri væri aðeins einn virkjunarkostur eftir í landinu sem einn og sér væri nógu stór til þess að fullnægja slíkum þörfum, einu stykki risaálveri, það væri Jökulsá á Fjöllum. Hvergi annars staðar er að finna í einu vatnsfalli svo mikið afl að ef það væri beislað í einu lagi dygði það fyrir slíkum pakka. Næstu kostir þar fyrir neðan kalla yfirleitt á að afli úr þremur til fjórum fallvötnum eða mörgum háhitasvæðum sé safnað saman.

Hvað kynni þá að gerast, herra forseti, ef aftur bankaði á dyrnar innan fárra ára erlendur aðili sem vildi reisa eitt stykki risaálver? Hvar er hætt við að menn mundu bera niður? Er það ekki á þeim eina stað þar sem í einu vatnsfalli væri saman komið nóg afl til þess að mæta slíkum þörfum? Þess vegna held ég að það væri nú gagnlegt að menn tækju einu sinni umræðu um vernd náttúrufyrirbæris af þessu tagi, þar sem er Jökulsá á Fjöllum, áður en það er komið í bein tengsl við einhver fyrirhuguð framkvæmdaáform og áður en mönnum er stillt upp við vegg og sagt: Ætlið þið að fara að koma í veg fyrir þessa uppbyggingu, þessi störf og þessar tekjur með því að leggjast gegn framkvæmdunum? Við höfum enn þá tíma til þess að taka þessa grundvallarákvörðun hvað varðar Jökulsá á Fjöllum því enn sem komið er er ekki beinlínis verið að banka á dyrnar og biðja um strauminn eða orkuna úr Dettifossi. En hver veit hvenær sú tíð er og hvar hún er handan við hornið.

Það er rétt að nefna það Jökulsá á Fjöllum til framdráttar í þessu sambandi að hún hefur að geyma alla verðmætustu eiginleikana sem stórfljót af þessu tagi í raun og veru getur búið yfir. Þetta er stærsta vatnasvið landsins upp á 8.000 ferkílómetra, þetta er næstkorgugasta jökulá landsins að Jökulsá á Dal frátalinni, þetta er fjórða vatnsmesta vatnsfallið að meðalrennsli með mikla sveiflu í vatnsrennsli, eins og menn m.a. upplifðu sterkt síðasta sumar þar sem áin var vikum saman síðla sumars í 400, 500, 600 rúmmetra rennsli og alltilkomumikil á að sjá, ekki síst við Dettifoss.

Ég hef áður nefnt allt umhverfi árinnar, ummerki um hamfarahlaupin o.s.frv. Í grg. með tillögunni er vitnað í hin fleygu orð Sigurðar heitins Þórarinssonar jarðfræðings, en hann vann merkt brautryðjandastarf þegar hann tók saman yfirlit yfir fossa á Íslandi, raðaði þeim í forgangsröð miðað við verndargildi og komst að þeirri niðurstöðu að fossaröðin í Jökulsá á Fjöllum væri tvímælalaust í allra hæsta verndarflokki. Eða eins og það er orðað í hinu gagnmerka riti Sigurðar: ,,... stórvirkjun í Jökulsá eyðileggur röð fossa: Selfoss, Dettifoss og Hafragilsfoss, sem samanlagt eiga enga sína líka hérlendis og í Evrópu allri``. Reyndar lýsti Sigurður, minn gamli lærifaðir, einnig í þessu riti viðhorfum sem ekki er síður ástæða til að rifja upp í dag. Hann sagði, með leyfi forseta: ,,Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílówattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.``

Svo mörg voru þau orð og eiga ekki síður við í dag en á sinni tíð þegar þau voru rituð á áttunda áratug síðustu aldar.

Það er líka rétt að menn hafi það í huga að það er síður en svo að virkjunarhugmyndir og nýtingarhugmyndir hvað varðar Jökulsá á Fjöllum eða hluta af vatnasviðinu séu allar úti af borðinu. Ég hef skoðað glænýja pappíra þar sem einmitt er verið að velta vöngum yfir tæknilegum úrlausnum á því viðfangsefni að taka vatn úr Kverká, Kreppu og jafnvel Jökulsá sjálfri, austur um Fagradal eða Arnardal, niður í Fljótsdal og áfram yfir á Hérað. Þannig að það eru uppi bæði eldri og yngri ráðagerðir um virkjun Jökulsár á Fjöllum.

Við flutningsmenn þessarar tillögu erum þeirrar skoðunar að tímabært sé að Alþingi taki af skarið í þessu máli. Það væru tvímælalaust tímamót ef tekin yrði ákvörðun um að friðlýsa vatnsfall og vatnasvið af þessu tagi eigin gildis vegna. Inn á þá braut hafa Íslendingar lítið farið og ég hef stundum undrast það hversu langur tími er liðinn síðan hin merku vatnalög voru sett hér á hinu háa Alþingi 1926 þar sem vatnsvernd og vernd náttúrulegra rennslishátta er mjög sterkur þáttur. En síðan er eins og það hafi gleymst og menn jafnvel gert sér leik að því að brjóta ótvíræð ákvæði vatnalaga sem mæla skýrt fyrir um það að við allar framkvæmdir og alla vatnsnotkun, hvort sem er til áveitna, til öflunar drykkjarvatns eða til virkjana skuli halda allri röskun á náttúrulegum rennslisháttum fallvatna í lágmarki. Það hefur nú ekki verið haft sérstaklega að leiðarljósi, a.m.k. á norðausturhálendinu hin síðustu missirin, herra forseti.

Þó að þessi áfangi næðist sem ég vil reyndar trúa að auðvelt ætti að vera að safna pólitískri samstöðu um, hvort sem það gerist sem algerlega sjálfstætt mál eða í einhverjum tengslum við stærri og viðameiri verndunaraðgerðir eins og nú eru á dagskrá og viðfangsefni sérstakrar nefndar hvað varðar svæðið norðan jökla, þá hafa yfirlýsingar manna ýmsar verið á þá lund að þeir telji að ekki komi til greina að hrófla við Jökulsá á Fjöllum. Þó að þetta næðist, sem maður vildi vissulega vona, þá er síður en svo að þar með sé nóg að gert. Það eru mörg önnur vatnasvið og aðrar ár sem væri fullkomin ástæða til að skoða með sama hætti, og ég nefni þar sérstaklega Hvítárnar tvær, þ.e. í Borgarfirði og í Árnessýslu, og eins Skjálfandafljót sem margir renna hýru auga til en hefur að geyma einstaka fossa og stórbrotið umhverfi þar sem er Bárðardalurinn og umhverfi Skjálfandafljótsins allt upp til Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls.

Þess er rétt að geta að lokum, herra forseti, að málum hliðstæðrar tegundar hefur áður verið hreyft hér á Alþingi og er vitnað til þess í lok fylgiskjals.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. umhvn.