Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 14:36:24 (1115)

2003-11-04 14:36:24# 130. lþ. 20.4 fundur 19. mál: #A friðlýsing Jökulsár á Fjöllum# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. var hér í húsi við atkvæðagreiðslu áðan og ég verð að segja að ég bjóst við að hún mundi doka við og taka þátt í þessari umræðu með okkur. Ég lýsi yfir vonbrigðum með að hún skuli ekki hafa séð ástæðu til þess þar sem ég tel umræðuna vera afar mikilvæga, afar gagnlega fyrir okkur á tímum þar sem verndarsjónarmið hafa orðið að þoka fyrir nýtingarsjónarmiðum. Eins og þeir ræðumenn sem þegar hafa talað á undan mér hafa vikið að eru kannski að verða síðustu forvöð fyrir okkur á Íslandi að vernda vatnasvið heils jökulfljóts. Hvað liggur þá beinna við þegar búið er að fórna Jökulsá á Dal en að standa vörð um Jökulsá á Fjöllum?

Jökulsá á Fjöllum er afskaplega sérstæð á eins og lýst hefur verið og lýst er í greinargerð með þessu máli sem finna má á þskj. 19 í gögnum hv. þingmanna. Henni er sömuleiðis lýst í mjög viðamikilli skýrslu sem Náttúrufræðistofnun Íslands gerði nýverið um náttúrufar og verndargildi náttúrufyrirbæra norðan Vatnajökuls. Í þeirri skýrslu má sjá að vísindamenn okkar og verndarstofnun leggja afar ríka áherslu á þessa gersemi og að sjálfsögðu er eðlilegt að við gerum það núna þegar við sjáum fórnina sem verið er að færa á altari stóriðjunnar á svæðinu norðan Vatnajökuls.

Menn kunna að spyrja sig, virðulegi forseti: Er einhver hætta á því að farið verði í að virkja Jökulsá á Fjöllum? Og ég segi: Já. Ég segi tvímælalaust já. Það er hætta á ferðum, meðal annars vegna þess að Jökulsá á Fjöllum er enn þá opinberlega í gögnum stjórnvalda yfir mögulega virkjunarkosti á Íslandi. Hún er enn þá nefnd í skýrslu um innlendar orkulindir til vinnslu raforku og þar er hennar getið undir heitinu Austurlandsvirkjun sem á sínum tíma og löngum hefur gengið undir nafninu ,,langstærsti draumurinn`` en þar var einmitt hugmynd að virkja saman Jökulsá í Fljótsdal, Jökulsá á Dal og Jökulsá á Fjöllum og búa til þrjú risastór lón, þ.e. lón á Eyjabökkum, Hálslón og Arnardalslón. Þessu plani hefur ekki verið aflýst. Þessar teikningar og þær rannsóknir sem hér liggja til grundvallar eru enn þá uppi á borðum þeirra aðila sem ásælast orkuna í fallvötnunum okkar. Þess vegna segi ég: Það er full ástæða til að ræða þessi mál af mikilli alvöru, og það núna. Langstærsti draumurinn er enn á teikniborðinu.

Þegar Kárahnjúkavirkjun hefur verið skoðuð hafa menn vikið að því að það væri hægur vandi að bæta í Hálslón vatni sem kæmi t.d. úr Kverká og jafnvel Kreppu, leiða bara einfaldlega í göngum sem er svo auðvelt að bora nú til dags eins og við höfum heyrt sagt fjálglega frá í fréttum og dúndra því niður í Hálslón. Kann að vera að sá draumur lúri í einhverju brjósti einhvers staðar á einhverri verkfræðiskrifstofunni. (Gripið fram í: Næststærsti draumurinn.) Það er næststærsti draumurinn.

Herra forseti. Ég held að málið sé afskaplega alvarlegt og þess vegna sé mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga bregðist við núna og slái skjaldborg um vatnasvið Jökulsár á Fjöllum. Það liggur fyrir í náttúruverndaráætlun hæstv. umhvrh. sem var kynnt á umhverfisþingi sem ræðumenn hafa nú þegar vikið að að það eigi að stækka þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum en það er eingöngu talað um að hann skuli stækka til austurs og svo er talað um smáspildu til norðurs, norður fyrir Dettifoss, en það er ekki talað um að taka vatnasviðið allt suður undir Vatnajökul. Ég lýsi vonbrigðum mínum með það því að ég tel að við höfum í náttúruverndaráætluninni tækifæri til að taka stærra skref hvað varðar þjóðgarð í Jökulsárgljúfrum en hæstv. umhvrh. leggur til. Ég hvet hv. alþingismenn til að kynna sér vel þau plön sem eru á borðum stjórnvalda, taka afstöðu og þá fyrst og fremst auðvitað að taka afstöðu með verndarsjónarmiðunum.

Við eigum von á því að fá rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hingað á okkar borð innan skamms. Eins og vikið hefur verið að hefur Sveinbjörn Björnsson verkefnisstjóri rammaáætlunarinnar gert mjög góða grein fyrir því hvernig störf rammaáætlunarverkefnisstjórnarinnar hafa gengið. Við höfum því miður þurft að bíða úr hófi eftir niðurstöðunum. Satt að segja eru margir orðnir mjög óþolinmóðir en ég hef hér tilraunamatið á 15 virkjunarkostum í vatnsafli sem gefið var út af sömu verkefnisstjórn í apríl árið 2002 og þá kemur í ljós algerlega svart á hvítu, það er alveg sama hvernig málinu er velt fyrir sér, að Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal, þ.e. árnar sem tengjast Kárahnjúkavirkjun, eru í raun og veru viðkvæmustu og dýrmætustu svæðin út frá sjónarmiðum náttúruverndar.

Herra forseti. Kannski eru að verða síðustu forvöð að vernda stórfljót á hálendi Íslands. Vöknum nú af dvalanum, tökum til hendinni, skoðum þessi mál gaumgæfilega og gerum það núna. Nú höfum við tækifæri, sláum upp á Alþingi Íslendinga skjaldborg til verndar Jökulsá á Fjöllum.