Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 15:21:34 (1121)

2003-11-04 15:21:34# 130. lþ. 20.5 fundur 33. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Hér er um endurflutta tillögu að ræða frá 128. löggjafarþingi en tillagan varð þá ekki útrædd. Hún er nú flutt óbreytt enda efni hennar að öllu leyti í fullu gildi.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Meginmarkmið aðgerðanna verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Áætlunin feli í sér sérstaka athugun á eftirfarandi þáttum og eftir atvikum tillögur til úrbóta:

kostnaði við að stofna til atvinnurekstrar og aðgangi að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi,

aðgangi smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu,

kostnaði og aðgangi smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga,

aðstöðu smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu,

kostnaði og eftir atvikum öðrum hindrunum sem torvelda kynslóðaskipti í smáatvinnurekstri,

kostnaði uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar,

skattalögum og öðrum þáttum sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja,

stöðu smáatvinnurekstrar samkvæmt lögum og reglum, gagnvart eftirliti og leyfisveitingum og kostnaði við samskipti við stjórnsýslu og stofnanir,

stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja í atvinnurekstri,

stöðu frumkvöðla,

stöðu uppfinningamanna.

Áætlunin skal lögð fyrir Alþingi til staðfestingar haustið 2004 og þinginu síðan gerð grein fyrir framvindu mála með skýrslu á tveggja ára fresti.``

Hér er lagt til, virðulegur forseti, að farið verði út á braut sem er vel þekkt sums staðar í nágrannalöndum okkar, að í gildi sé sérstök framkvæmdaáætlun um aðgerðir af þessum toga, það sem heitir á skandinavískunni ,,handlingsplan`` og er mikil tíska í þeim löndum. Það er ekki ástæða til að ræða hvern og einn þeirra þátta sem hér eru taldir upp og eiga að koma til skoðunar. Á þeim er þó brýnt að taka.

Ég vil sérstaklega nefna það sem snýr að aðgangi smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu. Ég hygg að ég tali fyrir munn margra þegar ég segi að hvar sem maður fer og ræðir við þá sem standa að nýsköpun í atvinnumálum, eru að koma nýjum atvinnurekstri á fót eða byggja upp og efla lítil fyrirtæki, þá er áberandi hversu erfið staða slíkra aðila er hvað varðar nauðsynlegustu fjármagnsfyrirgreiðslu. Ef menn komast yfir þann erfiða hjalla og koma fyrirtækjum sínum á legg, framleiðslu þeirra í gang eða sú starfsemi sem þar á í hlut er búin að sanna sig og farin að skila frumkvöðlunum afkomu þá koma iðulega til sögunnar aðilar sem bjóða fram fé, gjarnan gegn því að fá fyrirtækið keypt og ná þar undirtökunum. Þá fyrst treysta lánastofnanir sér til að veita fyrirtækinu fyrirgreiðslu þegar það hefur sannað sig og hefur komist yfir erfiðustu þröskuldana á vegi þess.

Staðreyndin er sú að fjölmargar tilraunir til nýsköpunar og ýmis álitleg sprotafyrirtæki ná aldrei alla leið í mark hvað þetta snertir, ef svo má að orði komast. Mörg verða úti á berangri þess áhuga- og afskiptaleysis sem virðist því miður oft á tíðum ríkja í málefnum frumkvöðla og nýsköpunar- og sprotastarfsemi hér á landi.

Að sjálfsögðu skiptir þarna fjölmargt annað máli. Ég hygg að í tillögugreininni sé um sæmilega tæmandi upptalningu á því helsta að ræða þó ugglaust megi bæta við. En það er enginn vafi á að því sem snýr að kostnaðinum við að stofna til atvinnurekstrarins, koma honum á legg, að fá nauðsynlegar upplýsingar og ráðgjöf í því sambandi, er víða ábótavant. Eins er ljóst að takmarkaður aðgangur smærri atvinnurekstrar eða þess sem er nýr af nálinni að nauðsynlegri fjármálaþjónustu og fjármagni er mikill flöskuháls.

Það er rétt að geta þess, herra forseti, að ýmislegt hefur að sjálfsögðu verið að gerast í þessum efnum á síðustu árum og ber að fagna því. Það má geta þess að síðan þessi tillaga var fyrst flutt hefur nýsköpunarmiðstöð tekið til starfa á Akureyri sem er reyndar sérstaklega ætlað að sinna málefnum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þar er þó eingöngu um útibú frá nýsköpunarmiðstöð Iðntæknistofnunar, Impru, að ræða. Það sem þar er gert er vel gert. Hinu er þó ekki að neita að mikið tómahljóð er í tunnunni hvað varðar fjármagn til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi. Nýsköpunarsjóður er þorrinn og er að mestu leyti hættur að leggja fé til nýrra fyrirtækja, á nóg með það sem þegar hefur verið gert. Enn hefur ekki heyrst af umtalsverðum áformum um að bæta við nýju fé.

Það er einnig rétt að geta þess að síðasta vetur var hér á Alþingi til umfjöllunar ákvörðun Íslands um að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2002, sem er um breytingu á XV. viðauka EES-ssamningsins. Þar er fjallað um þær greinar Rómarsáttmálans sem lúta að ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Með þessari ályktun, sem Alþingi afgreiddi hér sl. vor, fylgdi reglugerð framkvæmdastjórnarinnar, nr. 70/2001, um framkvæmdina og viðauki þar sem skilgreint er hvað skuli teljast lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi í samræmi við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og annars staðar á því svæði. Þar með hafa slíkar skilgreininingar öðlast tiltekna viðurkenningu og lagastoð hér á landi og ljóst að evrópskar samkeppnisreglur heimila sérstakan stuðning við fyrirtæki sem falla undir skilgreininguna, þ.e. fyrirtæki sem teljast samkvæmt þessari flokkun lítil eða meðalstór.

Það er reyndar svo, virðulegur forseti, að þegar það er skoðað fellur stærstur hluti íslensks atvinnulífs undir þessa skilgreiningu. Stærstur hluti íslenskra fyrirtækja telst annaðhvort lítill eða meðalstór samkvæmt evrópskum reglum.

[15:30]

Ég fór yfir það að gamni mínu í sumar þegar listinn um 100 eða 200 stærstu fyrirtækin birtist í tímaritinu Frjálsri verslun og bar saman við skilgreininguna sem tekur tvær viðmiðanir, annaðhvort að um 50 starfsmenn eða færri sé að ræða eða veltu upp á tilteknar fjárhæðir í evrum, og mig minnir að ég hafi þá lent einhvers staðar inn á listann á bilinu milli 50 og 100 stærstu fyrirtækjanna í landinu. Þannig að það eru kannski ekki nema 100 eða innan við 100 stærstu fyrirtækin sem fara upp fyrir þessi mörk. Það segir okkur þá að í raun og veru höfum við Íslendingar mikla möguleika á því að beita þessum heimildum ef vilji er fyrir hendi. Stór hluti þessara minni fyrirtækja eða verulegur hluti þeirra er síðan á svæðum sem jafnframt uppfylla skilyrði til sértæks byggðastuðnings, svonefnd þróunarsvæði í byggðalegu tilliti, en það á við um Ísland að mestu leyti utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Þannig að það er ekki það sem þarf í öllu falli að halda aftur af okkur eða torvelda okkur að hlúa að nýsköpun, hlúa að frumkvæði einyrkja og brautryðjenda og styðja við bakið á litlum eða nýjum fyrirtækjum sem eru að byggja sig upp að reglur standi þar í vegi.

Herra forseti. Ég held að það sé einnig ástæða til að fara yfir þá staðreynd sem allt of oft týnist í umræðunni og fellur í skuggann af þeirri athygli, svo maður segi ekki aðdáun, sem umsvif stórfyrirtækja og fjölþjóðafyrirtækja fá, að það eru ekki þau sem leggja til hrygglengjuna í nýsköpun, hagvöxt og tilurð nýrra starfa í hagkerfum Vesturlanda. Það er þveröfugt. Uppistaðan af nýjum störfum verður til í nýjum fyrirtækjum eða litlum og meðalstórum fyrirtækjum í vexti. Kannanir hafa sýnt að allt að 70% nýrra starfa í almennu atvinnulífi verða til í nýjum smáfyrirtækjum eða litlum og meðalstórum fyrirtækjum í vexti. Og hrygglengjan í hagvexti og framþróun í atvinnulífi þjóða er drifin áfram af nýsköpun í slíkum fyrirtækjum. Það er síðan oft annar handleggur að þegar slík starfsemi er komin fram í dagsljósið þá koma stórfyrirtækin til sögunnar með sínu fjármagni og vilja gjarnan innlima þá starfsemi eða kaupa hana upp.

Það er líka ástæða til að minna á að í þessu sambandi er rétt að gleyma ekki frumkvæði kvenna í atvinnulífinu. Það er ekki síst í stofnun nýrra fyrirtækja og smáfyrirtækja þar sem konur með útsjónarsemi sinni eygja tækifæri í viðskiptum sem aðrir hafa ekki komið auga á og Ísland er hér engin undantekning. Sem betur fer hefur orðið gjörbreyting á bæði í nálgun opinberra aðila sem og í almennri umræðu um þá hluti á allra síðustu missirum, konur hafa bundist samtökum, skipulagt sig og komið fram í umræðuna af miklu meiri krafti en áður sem gerendur á þessu sviði. Það er ánægjulegt að fylgjast með því að margt það merkilegasta sem tengist nýsköpun á mörgum sviðum viðskipta, t.d. í ferðaþjónustu, menningu og listum, í handverks- og smáiðnaðarframleiðslu, ráðgjafarþjónustu, framleiðslu á snyrtivörum, lyfjum, heilsuvörum og öðru slíku, er til orðið vegna frumkvæðis kvenna í fyrirtækjum sem konur hafa stofnað, oft af miklum dugnaði og útsjónarsemi. Það er hluti af þeim sköpunarkrafti sem einmitt er vilji okkar flutningsmanna að virkja með þessari tillögu.

Það er að sjálfsögðu ekki svo að hér sé verið að finna upp hjólið. Eins og ég kom áður inn á eru slíkar framkvæmdaáætlanir um stuðning við starfsemi af þessu tagi víða við lýði. Það er líka rétt að geta þess og komið inn á það í greinargerð með tillögunni að hjá Evrópusambandinu er í gildi sérstakur sáttmáli eða stefnumörkun um smáfyrirtæki sem heitir á ensku European Charter for Small Enterprises. Málið hefur einnig verið á dagskrá norrænnar samvinnu. Þar var starfshópur sem starfaði á vegum efnahagsnefndar Norðurlandaráðs og hann skilaði tillögum sem Norðurlandaráð hefur gert að sínum og falið ráðherraráðinu til framkvæmdar. Það er kominn í gildi norrænn sáttmáli sem gildir núna á þessu sviði og nýlega var ákveðið að breyta eða sameina í eina stofnun norræna þróunarmiðstöð og Norræna iðnþróunarsjóðinn í öflugri stofnun sem hefur þá yfir að ráða bæði fagþekkingu og fjármunum til að stuðla að nýsköpun og þróun í atvinnulífi á Norðurlöndunum.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég vil bara taka fram til að það misskiljist ekki að að sjálfsögðu ber ekki að líta á þessa tillögu sem neitt vantraust á þá viðleitni til nýsköpunar og þróunar sem í gangi hefur verið af hálfu aðila eins og Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og atvinnuþróunarfélaganna víða um land. Þar er víða unnið hið merkasta starf en því miður af miklum vanefnum. Þessar einingar eru veikar og fjárvana. Þær hafa mátt búa við það reyndar missirum saman að hafa ekki fast land undir fótum. Þær hafa ekki haft samninga um sína starfsemi og sínar fjárveitingar og það hefur skapað öryggisleysi og erfiðari starfsskilyrði en ella hefði þurft að vera. Fyrst og fremst, herra forseti, þarf að stórefla þessa starfsemi. Ef við ætlum að sækja fram og hafa í landinu þróttmikið og dafnandi og fjölbreytt atvinnulíf þá þarf að leggja mikla áherslu á þessa þætti. Það næst ekki með því að einblína á fáa, stóra, miðstýrða stóriðjukosti. Burt séð frá deilum um þá sem slíka og hvaða áhrif sem þeir kunna að hafa í efnahagslegu tilliti í hagkerfinu eða á atvinnulífið hið næsta sér, þá er í öllu falli ljóst að ef við viljum þróttmikið, gróskumikið og fjölbreytt atvinnulíf vítt og breitt í byggðum landsins þá verður að taka betur á í þeim efnum en gert hefur verið hingað til.