Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 15:52:23 (1124)

2003-11-04 15:52:23# 130. lþ. 20.5 fundur 33. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., EKH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Sú till. til þál. sem liggur fyrir frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og fleiri þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um aðgerðir til stuðnings í atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum er ánægjulegt vitni um að menn bera hag smáfyrirtækja fyrir brjósti og er full af velvilja í garð þess konar atvinnurekstrar sem að sjálfsögðu er einn af mikilvægum þáttum í atvinnulífi okkar.

Eins og kemur fram í lok greinargerðar hefur borið á því að hér sé atvinnulífið allt sett undir sama hatt þótt ljóst sé að aðstæður og úrlausnarefni séu gerólík eftir því um hvers konar atvinnurekstur er að ræða. Ég held að svið smáatvinnurekstrar sé einmitt afar fjölbreytt og kannski duga ekki almennar aðgerðir í öllum tilfellum gagnvart því fjölbreytta sviði.

Við verðum líka að átta okkur á því hvernig við skilgreinum smá og meðalstór fyrirtæki. Ekki duga alþjóðlegar skilgreiningar vegna sérstöðu íslensks atvinnulífs. Mikill meiri hluti íslenskra fyrirtækja mundi flokkast undir svokölluð örfyrirtæki, ekki smáfyrirtæki. Félög á vegum einyrkja eru yfir helmingur allra fyrirtækja á Íslandi og örfyrirtæki eru þau fyrirtæki sem hafa í vinnu frá einum til níu manns. Slík örfyrirtæki eru fjölmörg á Íslandi og eru auðvitað mikilvæg og þá sérstaklega úti á landi þar sem ef slík örfyrirtæki væru ekki til væri harla lítið atvinnulíf.

Smáfyrirtæki væru þá á bilinu þar sem eru 10--49 starfsmenn en meðalstór fyrirtæki á bilinu 50--250 starfsmenn. Ef við notum þessa skilgreiningu á Íslandi sjáum við að meðalstór fyrirtæki samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu eru nánast að segja stórfyrirtæki á íslenska vísu. Það eru tiltölulega mjög fá fyrirtæki hér á landi sem hafa yfir 250 manns í vinnu. Ég lít svo á að þegar hér er talað um smáfyrirtæki, sem mér sýnist tillagan aðallega miða við, þá séum við að tala fyrst og fremst um fyrirtæki sem eru með undir 50 manns í vinnu.

Samf. hafði á síðasta vetri í gangi starfshóp til að huga að málefnum smáfyrirtækja og þar kom ýmislegt athyglisvert fram. Eitt helsta vandamál smáfyrirtækja á Íslandi er að arðsemin er yfirleitt mjög slök. Einnig er þekkingu mjög ábótavant í fyrirtækjunum. Þetta gildir um samanburð við smáfyrirtæki í öðrum löndum og það gildir líka samanborið við starfsemi stærri fyrirtækja á Íslandi. Þetta er eitt helsta vandamálið sem stendur í vegi fyrir því að smáfyrirtækin geti stækkað.

Framleiðnin er yfirleitt heldur slök og lítil miðað við stærri fyrirtæki hér á landi en forsendan fyrir því að smáfyrirtæki geti orðið stærri og sterkari er að framleiðnin í fyrirtækjunum sé bærileg. Munurinn á framleiðnistigi í íslenskum smáfyrirtækjum er meiri hér á landi miðað við önnur fyrirtæki í öðrum löndum í Evrópu.

Smáfyrirtæki eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg fyrir atvinnusköpun í landinu. En kannski er sá misskilningur stundum uppi að þau standi fyrst og fremst undir nýsköpun og hagvexti. Við þekkjum það af umræðum í öðrum löndum oft á tíðum að talið er að hugmyndirnar kvikni fyrst og fremst í litlum fyrirtækjum, smáum fyrirtækjum, og að þau séu mikilvæg fyrir hagvöxt en það á eingöngu við þegar þau smáfyrirtæki vaxa og hafa tækifæri og skilyrði til þess.

Meginverkefnið er því að hjálpa fyrirtækjunum til þess að verða stærri og þá er ég að tala um fimm til tíu manna fyrirtæki, 20--30 manna fyrirtæki, hjálpa þeim til að vaxa og verða öflugri. En hvernig gerum við það? Eitt helsta vandamálið í fyrirtækjarekstri hér er einmitt þegar fyrirtæki eru komin yfir byrjunarerfiðleikana, yfir fyrstu tvö, þrjú, fjögur árin og þurfa að fara að móta stefnu sína til framtíðar. Þá þurfa þau yfirleitt að kosta til þess tíma, miklum fjármunum, kaupa ráðgjöf sem opinberum ráðgjafarstofnunum er óheimilt að veita vegna þess að þá væru þær í samkeppni við aðra ráðgjafa sem veita ráðgjöf á markaði. Þess vegna verða smáfyrirtækin að kaupa ráðgjöf að dýrum dómum. Og mörgum þeim fyrirtækjum reynist um megn að móta framtíðarstefnu við þessar aðstæður. Reynslan sýnir að geri þau það ekki, þá dagar þau uppi í samkeppni á markaðnum við stærri fyrirtæki og við erlendan innflutning oft á tíðum ef ekki kemur til skörp og skýr stefnumótun einmitt á þessu stigi.

Það er afskaplega góðra gjalda vert að gera slíka úttekt eins og hér er lögð til og dæmi eru um það í mörgum öðrum löndum að farið hefur verið yfir löggjöf um efnahags- og atvinnumál með tilliti til smáfyrirtækja. Það hefur skilað árangri í atvinnuuppbyggingu og hagvexti í þeim löndum. Finna má dæmi um þetta í Kanada, Bandaríkjunum og á Írlandi að slíkt hefur verið gert og það hefur skilað sér í góðum árangri. Til að mynda veit ég að atvinnurekendasamtökin á Írlandi hafa það á stefnuskrá sinni að við alla lagasetningu verði tekið tillit til hagsmuna smáfyrirtækja. Það er tillaga sem mér finnst mjög athyglisverð. (Forseti hringir.)

Um þetta mál mætti margt segja en ég hef lokið máli mínu.