Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 16:20:42 (1127)

2003-11-04 16:20:42# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., Flm. GunnB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Flm. (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um afléttingu veiðibanns á rjúpu, sem kemur í kjölfar þess að umhvrh. hefur ekki nýtt sér heimild í lögum til að aflétta friðun af rjúpunni frá 15. október til 22. desember. Þeir sem flytja þessa tillögu eru Gunnar Birgisson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Birkir J. Jónsson, Kristinn H. Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson, Kjartan Ólafsson, Einar Oddur Kristjánsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Þórarinn E. Sveinsson, Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson, Einar K. Guðfinnsson, Sólveig Pétursdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Pétur H. Blöndal, Guðmundur Hallvarðsson og Guðjón Hjörleifsson. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að umhverfisráðherra aflétti veiðibanni á rjúpu sem fyrst.

Í stað veiðibanns verði eftirfarandi leiðir farnar, ein eða fleiri, til að vernda íslenska rjúpnastofninn án þess að veiðar séu bannaðar: stytting veiðitíma, svæðisbundin friðun, einkum þar sem rjúpu- og fálkastofninn eiga undir högg að sækja, tímabundið sölubann, hámarksveiði á hvern veiðimann og bann við veiðum tiltekna daga vikunnar, sem og aukið eftirlit með banni við notkun vélhjóla og vélsleða við veiðarnar.``

Í greinargerð með ályktuninni segir eftirfarandi:

Með útgáfu reglugerðar nr. 716/2003 ákvað umhverfisráðherra að nýta ekki heimild laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, til að aflétta veiðibanni á rjúpu frá 15. október til 22. desember. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðherra er fyrirhugað að bannið gildi í þrjú ár, þ.e. 2003, 2004 og 2005. Veiðar verða því fyrst leyfðar aftur árið 2006. Þá skipaði umhverfisráðherra nefnd til að gera tillögur um fyrirkomulag rjúpnaveiða að loknu veiðibanninu.

Á síðasta þingi var til meðferðar frumvarp til laga um sölubann á rjúpum. Við ítarlega meðferð málsins í umhverfisnefnd Alþingis komst nefndin að þeirri niðurstöðu að sölubann væri ekki vænleg leið til árangurs heldur benti á önnur úrræði sem umhverfisráðherra væru tæk til að takmarka veiðar og vernda rjúpnastofninn, m.a. að stytta veiðitímabilið.

Sá sem hér stendur var í umhvn. þegar þetta mál kom til umfjöllunar og var það þverpólitísk niðurstaða nefndarinnar að leggjast gegn algjöru veiðibanni, frekar að stytta veiðitímabilið, fara í svæðisbundna friðun eða einhverjar aðrar aðgerðir heldur en að banna alfarið veiðar á rjúpu.

Þess má geta að fyrrv. umhvrh., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þegar hann var í þessu embætti og vísindamenn vöruðu hann við veikri stöðu rjúpnastofnsins þá stytti hann veiðitímabilið um einn mánuð árið 1994 og ætlaði allt vitlaust að verða. Ráðherra hefði einnig getað nýtt sér þennan möguleika en gerði það ekki. Þá benti umhvn. einnig ráðherra á að við værum að taka björgina frá bændum í landinu sem standa nú ekki allt of vel. Þeir hafa haft tekjur vegna veiðanna. Þeir hafa veitt sjálfir og selt og einnig hafa þeir selt aðgang að veiðilendum sínum. Á engar þessar röksemdir umhvn. hlustaði ráðherrann.

Umhverfisráðherra aflaði í kjölfarið álits Náttúrufræðistofnunar sem lagði til algert veiðibann í fimm ár. Umhverfisráðherra féllst á tillögur Náttúrufræðistofnunar um alfriðun rjúpunnar í tiltekinn árafjölda þrátt fyrir að Umhverfisstofnun hefði lagst gegn slíkum aðgerðum enda skorti rannsóknir til að byggja svo afdrifaríka ákvörðun á. Flutningsmenn benda einnig á að ákvörðun umhverfisráðherra gengur þvert gegn vilja umhverfisnefndar Alþingis sem lagði til að beitt yrði öðrum lögmæltum aðferðum en sölubanni á rjúpu og er þá augljóst að nefndin gerði ekki ráð fyrir að ráðherra gripi til alfriðunar þótt löggjafarþingið legðist gegn sölubanni.

Síðan hefur í framhaldinu gerst nokkuð merkilegt í málinu að hæstv. ráðherra hefur látið í það skína hér á sumardögum að hún væri nú tilbúin að skoða það að ef hún fengi komið á sölubanni, mundi hún aflétta veiðibanninu. Nú er hún aftur á móti fallin frá því og ætlar að halda fast við veiðibannið.

Ástand rjúpnastofnsins hefur um nokkurt skeið verið áhyggjuefni manna og telja flutningsmenn rétt að grípa til aðgerða til að hlúa að stofninum og draga úr sókn. Algert veiðibann í þrjú ár er hins vegar mjög róttæk aðgerð sem á sér ekki hliðstæðu í sögu rjúpnaveiða á Íslandi en rjúpan er vinsælasta bráð íslenskra skotveiðimanna. Flutningsmenn telja rétt að áður en gripið er til svo afdrifaríkra aðgerða skuli fyrst reyna önnur úrræði sem vægari eru gagnvart veiðimönnum og almenningi í landinu. Að mati Umhverfisstofnunar var ekki talið að þau gögn sem umhverfisráðherra byggði mat sitt á sýndu fram á nauðsyn þess að alfriða rjúpuna í tiltekinn árafjölda. Taldi stofnunin rétt að kannað yrði hvort önnur og vægari úrræði mundu ekki nægja til að ná sömu markmiðum.

Flutningsmenn telja að umhverfisráðherra skuli fyrst reyna aðrar aðgerðir en alfriðun og leggja til að notuð verði ein eða fleiri af eftirtöldum leiðum:

Í fyrsta lagi. Stytting veiðitíma. Veiðitímabilið mætti stytta t.d. í 4--5 vikur.

Hæstv. ráðherra hefur látið hafa það eftir sér að þetta sé ekki á hennar valdi. Varðandi þessa fyrstu tillögu þá hefur hún það algjörlega á sínu valdi. Með leyfi forseta, stendur hér í 17. gr. í áðurnefndum lögum:

,,Umhverfisráðherra getur í reglugerð, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, aflétt friðun eftirtalinna fuglategunda innan þeirra tímamarka er hér segir ...``

Það er frá 15. október til 22. desember varðandi rjúpuna. Þannig að það er ekkert mál, hæstv. fyrrv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson gerði þetta fyrir níu árum og það er enn þá hægt að beita þessu samkvæmt lögunum. Þannig að það er ekki málið.

Í öðru lagi. Svæðisbundin friðun. Það er unnt að stækka griðasvæði rjúpunnar en það þarf nánari rannsóknar við hversu umfangsmikil slík svæði eigi að vera. Nú þegar eru nokkur svæði friðuð til rjúpnaveiða, svo sem vegna friðunar einstakra landeigenda, þjóðgarða og önnur friðlýst svæði.

Það stendur líka í 17. gr. þessara laga, með leyfi forseta:

,,Nú hefur umhverfisráðherra ákveðið að aflétta friðun skv. 1. mgr. og getur hann þá að ósk sveitarstjórnar ákveðið að friðun gildi áfram í tiltekinn tíma á ákveðnum svæðum þar sem umferð veiðimanna er talin óæskileg.``

Hann getur að ósk sveitarstjórnar ákveðið að friðun gildi áfram í tiltekinn tíma á ákveðnum svæðum. Það er heimild í lögum fyrir þessu líka.

Í þriðja lagi. Tímabundið sölubann. Flutningsmenn telja að tímabundið sölubann með virku eftirliti ætti að geta dregið úr sókn svokallaðra magnveiðimanna sem hafa haft verulegar tekjur af skotveiðinni. Þessir magnveiðimenn veiða yfir 50% af veiðinni en eru tiltölulega fáir.

[16:30]

Eins og ég sagði áður hafði umhvn. ekki trú á þessari aðferð síðasta vor. Skoðun mín er sú að sölubann fúnkeri ekki mjög vel. En til að koma til móts við ráðherrann vildum við setja þetta fram. Ég hef talað við sérfræðinga í þessum málum, fuglafræðinga, sem tjá mér að þetta hafi gengið í öðrum löndum en taki nokkur ár. Gallinn við þessa lausn er að svartamarkaður myndast og algengara verður að rjúpur séu gefnar. Einnig má benda á að með því að hafa sölubann verður náttúrlega að banna innflutning í leiðinni. Flutningsmenn vilja engu síður benda á bannið sem einn af þeim möguleikum sem hæstv. ráðherra getur notast við.

Í fjórða lagi leggjum við til hámarksveiði á hvern veiðimann. Unnt væri að setja kvóta á hvern veiðimann en samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar veiða um 67% veiðikortahafa aðeins rjúpu. Meðalveiði á veiðimann hefur verið um 20--25 rjúpur undanfarin ár en þó er talið að um 10% veiðimanna hafi veitt um og yfir helming allra veiddra rjúpna undanfarin ár. Ef veiðarnar væru kvótasettar væri hægt að koma í veg fyrir veiðar í atvinnuskyni. Í þessu tilfelli verður að breyta lögum og helst að tengja þetta veiðikortinu.

Við bendum einnig á að eðlilegt er að hagsmunasamtök skotveiðimanna setji siðareglur um fjölda veiðiferða og veiddra fugla eins og tíðkast víða í lax- og silungsveiði. Væntanlega vilja þeir hafa rjúpnastofninn í góðu ástandi og geta veitt úr honum. Þetta hefur gefist ágætlega í lax- og silungsveiði og betur eftir því sem lengra líður.

Í fimmta lagi bendum við á að hægt væri að banna veiði tiltekna daga vikunnar, t.d. á sunnudögum og jafnvel einnig tvo daga í miðri viku. Með því fækkar veiðidögum innan veiðitímabilsins. Ef veiðitímabil er þannig brotið upp ætti einnig að draga úr ásókn magnveiðimanna.

Að lokum benda flutningsmenn á að með lögum nr. 60/2003, sem öðlast gildi 15. október 2003, verður óheimilt að notast við vélsleða og fjórhjól við veiðarnar. Flutningsmenn leggja áherslu á að virkt eftirlit verði með þessum þætti og ætti það ásamt öðrum aðgerðum sem hér eru upp taldar að geta stuðlað að minni sókn í íslenska rjúpnastofninn. Það yrði þó með þeim hætti að menn gætu skotið sér í soðið, a.m.k. haft rjúpur á jólaborðinu.

En það er annað sem er nokkuð merkilegt sem ég heyrði í fréttum um daginn sem hefur náttúrlega áhrif á viðgang rjúpnastofnsins. Það er fjölgun refs og minks í landinu. Refastofninn hefur fimmfaldast á síðustu 10 árum. Minki fjölgar verulega. Mönnum sem hafa farið á tófugreni og séð hvað er á matseðli tófunnar er ljóst að þar kemst rjúpan ekki undan.

Ég spyr: Er ekki betra og væri sú aðferð ekki áhrifaríkari, í staðinn fyrir að friða refinn eins og gert var á ákveðnum svæðum á landinu, að auka veiðar á ref og minki? Þetta eru mestu óvinirnir, báðir þessir vargar, hjá fuglum landsins. Þar sem ref og minki hefur fjölgað er mófugl nánast horfinn. Gaman væri að fá að vita hjá ráðherranum hve miklum fjármunum hefur verið varið í veiðar á ref og minki undanfarin ár? Hafa þeir fjármunir verið auknir eða hafa þeir minnkað? Eru áform uppi um að auka veiðarnar í stofnana? Hvað gerist ef ref og minki heldur áfram að fjölga eins og útlit er fyrir ef fram heldur sem horfir?

Flutningsmenn vona að þáltill. verði samþykkt og ráðherra muni taka vel í þá möguleika sem þarna er bent á til að við getum áfram verið með sjálfbæra veiði úr rjúpnastofninum. Boð og bönn eru ekki alltaf töfraorðin til að leysa öll mál.