Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 16:40:29 (1130)

2003-11-04 16:40:29# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[16:40]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. spyr: Hvað hefur breyst síðan í vor? Það hefur gerst síðan í vor að ráðherra hefur tekið ákvörðun um veiðibann í þrjú ár. Auðvitað er það mjög stór ákvörðun og mikil breyting. Til hvers ætti að ráðherrann að fara að flytja frv. um lagabreytingar þegar ráðherrann er nýbúinn að ákveða veiðibann til þriggja ára?

Ég spyr: Af hverju í ósköpunum flytja ekki flutningsmenn tillögunnar lagafrumvarp? Af hverju er verið að biðja ráðherra að grípa til úrræða sem ekki væru samkvæmt lögum? Ég get ekki gripið til slíkra úrræða samkvæmt lögum. Þið eruð að biðja mig í þessari tillögu ykkar að grípa til tveggja úrræða, veiðikvóta á mann og tímabundins sölubanns. Það er ekki hægt nema lögum sé breytt. Ég reyndi að fá slík lög í gegn síðasta vor. Það tókst ekki, m.a. vegna þess að hv. þm., Gunnar Birgisson, stóð gegn því.

Nú eru greinilega breyttir tímar og menn sjá að sér í þessu. En ég er búin að taka þessa ákvörðun. Það er breytingin frá því í vor. Þess vegna dettur mér ekki í hug að flytja lagafrumvarp núna. Ykkur væri nær að flytja það ef ykkur er svo mikið í mun að aflétta veiðibanni. Af hverju gerið þið það þá ekki?

(Forseti (ÞBack): Ég vil áminna hæstv. ráðherra um að ávarpa þingið rétt.)