Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 16:43:34 (1132)

2003-11-04 16:43:34# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég segja þetta: Að sjálfsögðu er það skoðun okkar jafnaðarmanna að rjúpan eigi að njóta vafans. Það er númer eitt.

Í öðru lagi vil ég segja: Það er arfur Samfylkingarinnar að halda vel á þessum málum. Það voru umhverfisráðherrar jafnaðarmanna, fyrst Eiður Guðnason og seinna Össur Skarphéðinsson, sem stóðu annars vegar fyrir aðild Íslendinga að Bernarsamningnum og hins vegar að ná villidýrafrumvarpi í gegnum Alþingi. Ef ég man rétt þá tók það fjögur ár. Ég vildi benda á þetta í upphafi.

Þá sný ég mér að þessari merkilegu tillögu. Fyrir hvað er þessi tillaga merkileg? Hún er merkileg fyrir það að hún sýnir okkur átök í stjórnarmeirihlutanum. Þessi tillaga snýr ekki að hinum breiða hópi Alþingis. Nei, 14 af flutningsmönnum hennar eru sjálfstæðismenn sem eiga 22 manna þingflokk. Þeir sem ekki eru á tillögunni eru annaðhvort ráðherrar, forseti Alþingis eða verðandi umhverfisráðherra 15. sept. að ári. Allir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins flytja þessa tillögu gegn umhvrh. Það er meginmálið. Þetta blasir við okkur og það sem við hljótum að gera hér í dag er fyrst og fremst að brosa og hlusta. Við spyrjum: Hvernig reiðir þessu stóra máli af innan stjórnarmeirihlutans?

[16:45]

Að vísu eru tveir til þrír framsóknarmenn og einn stjórnarandstæðingur á þessu. En uppistaðan er sú sem ég hef þegar greint frá. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram, virðulegur forseti, að þetta sé sýndartillaga og ekkert annað vegna þess að þingið kom saman 1. október. Umræðan um rjúpuna stóð í sumar og það var í sumar sem yfirlýsingar þingmanna komu í stríðum straumum. Það er 4. nóvember núna og við erum að tala um þáltill. um að breyta ákvæðum á þessu hausti um veiðar.

Við komum saman í umhvn. þingsins og 1. flm. og fleiri flutningsmenn frumvarpsins eiga sæti í umhvn. þingsins. Á fyrsta fundi umhvn. spurðum við jafnaðarmenn hvort taka ætti rjúpuna fyrir í nefndinni, af því að sagt hafði verið að rjúpan yrði tekin fyrir í umhvn. Alþingis. Engin svör komu við því. Á öðrum fundi spurðum við: Á að taka rjúpumálið fyrir í nefndinni? Engin voru svör og mest lítið um mætingar þeirra sem hæst höfðu haft í sumar.

Á þriðja fundi báðum við um að málið yrði sett á dagskrá en tókum það reyndar upp undir liðnum Önnur mál þar sem það gekk ekki og spurðum: Á nú að taka málið fyrir í nefndinni? En þá var það að sjálfsögðu ekki tímabært. Vegna hvers? Vegna þess að sýndartillaga var komin fram á Alþingi, sýndartillaga um að hætta við veiðibannið og leyfa eitthvað annað með tillögum í fimm liðum þar sem uppistaðan er lagasetning, sem færi væntanlega í gang núna eftir 4. nóvember.

Hver trúir þessu? Hver trúir því að hugur hafi fylgt máli hjá þeim sem hæst höfðu í sumar? Ekki nokkur maður. Þetta er aðferðafræði þeirra sem vilja láta taka eftir sér, aðferðafræði þeirra sem vilja skora inn í hópa veiðimanna sem segja: ,,Já, þetta eru sko okkar menn í þinginu. Þeir vildu aflétta veiðibanninu.`` Það er ekkert að marka þetta.

Í greinargerð þáltill. er sagt, með leyfi frú forseta:

,,Flutningsmenn benda einnig á að ákvörðun umhverfisráðherra gengur þvert gegn vilja umhverfisnefndar Alþingis sem lagði til að beitt yrði öðrum lögmæltum aðferðum en sölubanni á rjúpu og er þá augljóst að nefndin gerði ekki ráð fyrir að ráðherra gripi til alfriðunar ...``

Ég tek það fram að hér er ekki talað fyrir mína hönd sem á sæti í umhvn. enda er verið að vísa til afstöðu umhvn. á fyrra kjörtímabili. Ég þekki ekki til þeirrar umræðu að öðru leyti en því að a.m.k. einhverjir nefndarmenn þar hafa gert sér grein fyrir því og hafa sagt að þar sem lagst var gegn veiðibanni, og þeir tóku þátt í því, þá hlyti það að hafa blasað við að þetta yrði ein leiðin.

Ég tók líka eftir því á fundi sem ég var á um daginn og í gögnum sem ég hef fengið að það var mat veiðistjóra að sölubann á rjúpu gæti í besta falli dregið úr veiði 15--20%. Ef það er rétt þá hefði auðvitað þurft að beita fleiri aðgerðum.

Mest hefur verið talað um sölubann og veiðibann. Við í Samfylkingunni vorum búin að taka eina meginákvörðun í sumar og hún var sú að vera tilbúin til samræðna í nefnd um það hvort það fyndust leiðir sem væru ásættanlegar og allir gætu sæst á, þ.e. aðrar en alfriðun, en fyrst og fremst að fara þá leið sem best væri til að ná stofninum upp.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að nefna það að auðvitað horfum við á það að uppsveifla stofnsins, þessi tíu ára uppsveifla, er minni en nokkru sinni fyrr og auðvitað vitum við að nú er rjúpnastofninn 300--500 þúsund fuglar á hausti og að í hámarki væri hugsanlegt að koma honum upp í 1 milljón, meðan á síðustu öld var stofninn fimmfalt það. Verið er að tala um að fá að skjóta sér til matar. Það eru nú refurinn og minkurinn og fálkinn fyrir utan manninn sem eta rjúpuna. Og ef það er eina leiðin sem fær er þá mun sú sem hér stendur taka þátt í því að hægt sé að nota þessi þrjú ár til þess að búa til veiðistjórnarkerfi og byggja upp griðlönd á tilteknum svæðum á landinu til þess að síðar og eftir þessi þrjú ár muni siðferði gilda í veiðum hér á landi. Að sjálfsögðu munum við þingmenn Samfylkingarinnar taka þátt í umræðu um þessa þáltill. í nefnd enda höfum við mætt þar og látum að sjálfsögðu til okkar taka vinnuna þar og verði farið í vinnu á þessari tillögu og kallaðir til allir þeir fræðingar sem þarf þá munum við að sjálfsögðu kynna okkur þau viðhorf, virðulegi forseti.

En þessi tillaga hér hefði átt að koma fram strax ef nokkrum datt í hug að ná henni fram.