Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:07:52 (1139)

2003-11-04 17:07:52# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé langbest fyrir hv. þm. að lesa ræðuna mína, þar útskýri ég viðhorf mín. Ég tók fram, svo það misskiljist ekki, ég sagðist hiklaust vera fylgjandi veiðibanni ef aðrar fullnægjandi verndaraðgerðir væru ekki í boði. Sem sagt, það væri hreint ábyrgðarleysi að aðhafast ekkert. Eins og staðan er þá styð ég það þangað til náðst hefur samkomulag um að fara einhverjar aðrar leiðir sem menn eru sannfærðari um að sé verjanlegt að nota þegar eða ef menn opna fyrir veiðar á nýjan leik, sem við auðvitað vonum að verði sem fyrst.

Eitt sem að sjálfsögðu þarf jafnan að gera er að fylgjast mjög náið með ástandi stofnsins og hvort hann réttir úr sér. Kannski gerist það og vonandi, hvort sem það verður þá þakkað veiðibanninu eða að hve miklu leyti, því að auðvitað eru þarna margir þættir samverkandi, það vitum við vel. Það er ýmislegt til í því að ástæða sé til að ætla að fjölgun refs og minks hafi þarna sín áhrif, tíðarfar og ýmislegt fleira. Kannski eru einhverjar líffræðilegar aðstæður í stofninum sem við ekki vitum og í sumum tilvikum vitum við að það er, það eru sýkingar og annað slíkt sem hefur sín áhrif.

En aftur komum við að þessu sama að sjálfar veiðarnar eru auðvitað sá þáttur sem er hendi næst til að beita ef við teljum að grípa þurfi til aðgerða til að byggja stofninn upp, þ.e. að draga úr álaginu. Þetta er það sama og við erum að gera víða annars staðar í lífríkinu, á fiskimiðunum o.s.frv., og ætti ekki að vera okkur neitt nýtt eða framandi. Reynslan sýnir líka, bæði frá Íslandi og nálægum löndum, t.d. Grænlandi, að menn geta lent í því að fara algerlega offari í veiðiálagi á fuglastofna. Það er hörmulegt ástand á mörgum veiðitegundum í Grænlandi svo dæmi sé tekið, þannig að hér er ástæða til að fara að með gát.

Ég held að það þjóni litlum tilgangi og sé a.m.k. ekki í þágu rjúpunnar né heldur veiðimannanna að fara með þetta ofan í einhverjar sérstakar pólitískar skotgrafir, karp eða annað því um líkt. Ég held að það sé langgáfulegast að gera það sem ég stakk upp á, að fara með þetta mál í vandaða skoðun í vetur í þingnefnd og vita hvort hægt er að ná út úr nefndinni sem hv. þm. situr í einhverri vitrænni niðurstöðu.