Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:24:26 (1144)

2003-11-04 17:24:26# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:24]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög áhugavert að taka þátt í umræðum þar sem skipst er á skoðunum um það hvernig við stöndum að veiðum og veiðitímabilum, rannsóknum og takmörkunum á nýtingu náttúrunnar. Þess vegna vil ég beina einni spurningu til hæstv. umhvrh. vegna þess að í þeirri skoðun sem fram hefur farið hlýtur það að hafa komið upp að skoða mismunandi svæði á landinu með tilliti til þess hversu mikið magn af rjúpu væri á þeim og þá með tilliti til þess hvaða aðrar veiðar hafa verið stundaðar á svæðinu.

Svo að ég skýri þetta örlítið, virðulegi forseti, þá er það svo að menn eru mjög misduglegir að stunda veiðar á ákveðnum landsvæðum. Ég get tekið sem dæmi vestanvert Ísafjarðardjúp þar sem tvö ár í röð hafa verið drepnir yfir 300 minkar á hverju sumri af þeim veiðimönnum sem þar eiga að sjá um minkaveiði. Ég tel að þetta hafi orðið til þess að minki hafi fækkað mikið á svæðinu. Það vill nú svo til að ég á sumarhús í vestanverðu Djúpi og ég gerði það að gamni mínu nokkrum sinnum í sumar að labba upp fyrir bæinn og upp í fjallið til þess að vita hvort maður sæi ekki rjúpu og vissulega sá maður rjúpu. Ég held að það sé mjög athugandi að fá þetta upplýst hjá ráðherranum: Hvernig eru svæðin í landinu, hvaða magn af rjúpu er á ákveðnum svæðum og hefur það þá verið skoðað með tilliti til þess hvaða veiðar hafa farið fram, m.a. á mink og ref á viðkomandi svæðum? Ef þessi þekking er til staðar, held ég að við eigum að nota hana þegar við skipuleggjum nýtingu á rjúpnastofninum eins og við erum m.a. að ræða hér í dag, en ekki að grípa til allsherjarbanns út frá því að rjúpnastofninn sé í lægð. Við verðum þá að vita hvers vegna hann er í lægð og hvar.