Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:26:38 (1145)

2003-11-04 17:26:38# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki upplýsingar á þessari stundu um nákvæmlega hvaða magn hefur verið veitt af ref og mink, en það sem ég veit er að ríki og sveitarfélög hafa verið að auka fjármagn fyrir þessar veiðar þannig að þær hafa aukist.

Hins vegar veit ég að á þeim svæðum sem við friðuðum gagnvart rjúpnaveiðum á suðvesturhorninu hefur rjúpunni fjölgað, enda hefur hún fengið að vera í friði fyrir skotveiði. Mér hafa borist upplýsingar víða af landinu um að þar sjái menn ekki rjúpu. Sérstaklega hafa þessar upplýsingar komið frá Austurlandi og við heyrðum hérna áðan hvað hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði varðandi Norðausturland þannig að það berast upplýsingar um að það sé mjög lítið af rjúpu mjög víða, enda er það þess vegna sem við erum að grípa til þessara aðgerða.

Varðandi veiðibannið til þriggja ára sem grípa varð til í ljósi mjög bágrar stöðu rjúpnastofnsins, þá er á sama tíma og það bann er í gildi, þ.e. næstu þrjú árin, starfandi nefnd sem nú þegar hefur tekið til starfa. Í henni eru fulltrúar hagsmunaaðila og hún mun skoða í hvaða formi veiðarnar eiga að hefjast aftur og hvaða svæði t.d. verða þá tekin út úr sem griðasvæði. Ég held að það muni skapast fremur góð samstaða um það að velja ákveðin svæði til verndunar. Þar á líka að skoða hundana, þar á að skoða vopnin, þar á að skoða hvort setja eigi á kvóta, koma með lagabreytingar ef með þarf, þar á að skoða sölubannið, koma með lagabreytingar ef með þarf. Þannig að sú nefnd mun skila af sér væntanlega í lok ársins 2005 til þess að við getum breytt lögum árið 2006 og veiðar hefjist þá í nýju formi það ár af því að það eru breyttir tímar. Menn eru hættir að ganga til rjúpna. Þeir fara keyrandi meira eða minna. Menn komast miklu meira yfir og eru með öflugri vopn þannig að þetta eru breyttir tímar.