Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:44:41 (1151)

2003-11-04 17:44:41# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:44]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi nefndina sem starfaði á síðasta kjörtímabili sem fjallaði um þetta mál, þá er það alveg rétt sem hæstv. ráðherra bendir á að hún hefði auðvitað getað óskað eftir því að sett yrði á innflutningsbann. Þessi nefnd hafði ekki trú á því að það yrði vel liðið. Það var bara þannig. Við töldum okkur ekki stætt á því að fara fram með tillögu um innflutningsbann samhliða sölubanni.

Það var alveg ljóst að nefndin sem starfaði í fyrra var ekki hlynnt því að taka jafnstór skref og Náttúrufræðistofnun Íslands hafði lagt til í málinu. Það var hins vegar ekki nein sérstök atkvæðagreiðsla í því máli. Það var bara þannig að nefndin taldi hæstv. ráðherra hafa í höndunum það öflug úrræði til þess að takmarka veiðitímann, auka eftirlit og gera aðrar ráðstafanir til þess að tryggja vernd rjúpnastofnsins. En það sem er svo erfitt í þessu máli er nákvæmlega þetta: Að ætla sér að vernda um leið og maður nýtir. Það kemur að því að það getur verið orðið of seint.