Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 17:46:03 (1152)

2003-11-04 17:46:03# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[17:46]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég verð að segja fyrst að ég hef ekki byssuleyfi og hef aldrei skotið rjúpu. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að það hafi ekki verið valin rétt leið í þessu máli. Sú tillaga sem komin er fram ber fyrst og fremst vott um það að hæstv. ráðherra hefur ekki ráðið við málið. Það er eitthvað að þegar svona margir stjórnarþingmenn flytja mál og ég er heldur ekkert hissa þó að málið hafi komið upp vegna þess hvernig það kom að okkur í þinginu í vetur leið. Þá kom hæstv. ráðherra með tillögu um þetta svokallaða sölubann, og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig væri ástandið núna ef við hefðum samþykkt þá tillögu? Sú tillaga hefði orðið til þess að það hefði einungis dregið í kringum 20% úr veiðum. En nú kemur hæstv. ráðherra og segir að það þurfi að draga 70% úr veiðunum, og ég spyr: Hvað hefur breyst frá því í fyrra og hvers vegna var okkur ekki sagt það þá að það þyrfti að draga 70% úr veiðunum? Þá gæti vel verið að menn hefðu haft aðra skoðun á málinu en þeir höfðu.

Ég held að þetta mál beri fyrst og fremst vott um að ekki hafi verið vel að því staðið og ég er mjög óánægður með þetta vegna þess að ég var í umhvn. Mér fannst að hæstv. ráðherra væri sífellt að stilla okkur upp við vegg. Það var ekkert hægt að gera annað en að setja á þetta blessaða sölubann. Við bentum á aðrar leiðir og óskuðum eftir því að þær yrðu farnar. Hæstv. ráðherra kemur svo með þetta mál núna og ég óska eftir útskýringu á því. Mér finnst að upplýsingarnar sem er verið að tína fram núna sýni allt aðra mynd en þá sem fólst í tillögu hæstv. ráðherra í vetur leið um það að setja á þetta sölubann og veiði í 49 daga. Allt bannað.

Ég er á þeirri skoðun að það væri miklu heppilegra að ná lendingu í þetta mál með einhverjum millivegi. Kannski þarf að vísa því til heilbrrh. Það hefur verið reynt áður. Hann gæti kannski fundið út úr því hvernig hægt væri að ná einhverri sáttalendingu. (EMS: Það er ekki rétt ... landbrh.) (Landbrh.: Hvaða rjúpu á að skjóta?) Hæstv. forseti. Ég veit ekki nákvæmlega hvaða rjúpu á að skjóta enda hef ég aldrei tekið þátt í veiðum af því tagi en ég geri ráð fyrir að menn skjóti þær sem næst þeim eru.

Hæstv. forseti. Ég held að þetta mál sé miklu stærra í sniðunum en kannski hefur enn komið fram í þessari umræðu. Mér finnst þetta vera mál sem eigi að vera víðtækt samráð um milli allra aðila, ekki síst þeirra sem ganga um landið og vilja vera veiðimenn. Mér skilst að Sigmar B. Hauksson hafi 5.000 menn undir vopnum. Það munar aldeilis um slíkan hóp hermanna í þessu landi. Hæstv. umhvrh. kvartar hér undan ref og minki. Væri ekki hægt að nota eitthvað af þessum mannskap til þess að taka þátt í því að halda niðri varginum? Ég spyr. Er einhver skömm að því að skjóta tófu? Er einhver skömm að því að skjóta mink? (Gripið fram í.) Ég meina þetta í fullkominni alvöru. (Gripið fram í: Auðvitað.) Ég veit ekki betur en það hafi verið taldar mjög virðingarverðar veiðar í löndunum í kingum okkur að eltast við refi. Skyldi það ekki vera hægt á Íslandi líka? (Landbrh.: Jafnvel svín.) Hæstv. forseti. Það er nú liðinn sá dagur að villt svín gangi laus í landinu nema mjög takmarkað. Ég veit ekki til þess að svín hafi verið fellt æðilengi. Það var þó tilkynnt um eitt látið svín til lögreglunnar á Ísafirði fyrir fáeinum árum. (Gripið fram í: ... ættingja?) En ég tel að það megi finna margar leiðir til að takmarka mikið veiðar á rjúpu ef menn vilja leyfa þær. Ég bendi t.d. á, af því að ég veit að veiðimennirnir í þessu landi væru tilbúnir til að leggja sig mikið fram um að farið yrði vandlega eftir þeim reglum sem yrðu til, að gefa mönnum hreinlega daga til að veiða, að þeir tilkynni inn á tölvukerfi hvaða daga þeir ætla að nota og hvenær þeir koma til baka. Eftirlitið getur þá orðið mjög einfalt. Það getur verið fólgið í því að fylgjast með þessu tölvukerfi, taka stikkprufur af veiðimönnum og veiðimenn mundu sjálfir fylgjast hver með öðrum til að sjá til þess að farið yrði eftir þessum reglum. Ég efast ekkert um að menn mundu vilja gera slíka hluti. Og þá gætu menn haldið áfram með kortasjóðinn, hvað verður annars um hann ef allir veiðimenn verða gerðir vitlausir í þessu landi? Þurfa þeir á einhverjum veiðileyfum að halda? Þurfa þeir eitthvað að borga í þann sjóð? Ég held ekki. Ég held að það geti fækkað æðimikið krónunum í honum ef svona fer fram.

Ég held líka að það þurfi að skoða vandlega hvort það eigi að setja á veiðifélög sem hefðu ákveðin svæði. Þar gætu komið að landeigendur og vörslumenn lands á þeim svæðum sem um væri að ræða. Þannig væri hægt að stjórna fjölda veiðimanna inn á einstök svæði. Það er margt annað sem kæmi vel til greina að skoða í þessu sambandi og það verður auðvitað ekki gert allt í einu. Það er einfalt að gera það sem ég lagði til áðan að yrði skoðað og mér finnst að menn eigi ekki að afsegja það að fara yfir þetta mál að nýju. Mér finnst ráðherra skulda okkur sem fengum þetta mál í andlitið frá henni í fyrravetur að hún fari yfir, hæstv. ráðherra, þetta mál að nýju með það fyrir augum að reyna að ná einhverri sátt. Málið var mjög illa undirbúið. Við vorum mötuð í fyrravetur á vitlausum upplýsingum miðað við það sem nú er talað um og niðurstöðurnar sem hæstv. ráðherra kemur með eru sölubann sem við gátum aldrei reiknað með að yrði niðurstaðan þegar við fjölluðum um málið í fyrravetur.

Ég ætla ekkert að segja um það hver afdrif tillögunnar sem er hér til afgreiðslu verða. Mér finnst ólíklegt að hún komi út aftur í sömu mynd og hún er sett hér fram og ætla þess vegna að geyma mér að yfirlýsa nokkuð um það hvernig ég fer með atkvæði mitt þegar til afgreiðslu hennar kemur ef svo verður.