Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:08:11 (1158)

2003-11-04 18:08:11# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með einlægni hv. þm. í þessu máli. Það er vafalaust af einlægni að hann ræðir um nauðsyn þess að þingið fái að ráða og talar fyrir því að Alþingi segi hæstv. umhvrh. að draga til baka reglugerð sem hún setti fyrir örfáum vikum. Ef það er sérstök traustsyfirlýsing á hæstv. umhvrh. þá kalla ég eftir fleiri traustsyfirlýsingum á fleiri ráðherra í þeim dúr. Það getur tæplega talist mikið traust á flokkssystur hans, hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttur, þegar flokksbróðir hennar kemur hér, lýsir yfir sérstöku trausti á henni og segir henni jafnframt að hún eigi að draga til baka ákvörðun sem hún tók, væntanlega að vel yfirveguðu ráði, fyrir örfáum vikum. Ég held að það geti ekki verið öllu skýrara. Þessi tillaga kveður fyrst og síðast á um að hæstv. ráðherra verði gerð afturreka með ákvörðun sem hún tók. Það er kjarni málsins.

Ég hygg að hv. þm., af því að hann er nýkjörinn á þing, geti kannski lítið upplýst mig um gangverkið í ríkisstjórninni þessa dagana en afskaplega er þetta sérkennilegt fyrir okkur sem höfum verið hér eilítið lengur, þegar stærstur hluti þingflokks Sjálfstfl. fær leyfi hjá þingflokki Sjálfstfl. til að fara fram með tillögu af þessum toga og væntanlega þeir hv. þingmenn sem úr Framsfl. koma, hv. síðasti ræðumaður og kollegi hans, Þórarinn E. Sveinsson, fá samsvarandi leyfi úr þingflokki Framsfl. Með öðrum orðum: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í málinu? Ég ætla líka, virðulegi forseti, að hæstv. umhvrh. hafi spurt um leyfi áður en hún fór fram með þetta mikilvæga mál í ríkisstjórn.

Hvar er þetta mál? Mér finnst ég eins og óboðinn gestur í veislu þar sem allt logar í illdeilum og leiðindum.