Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:11:41 (1160)

2003-11-04 18:11:41# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vera einlægur með það. Ég hef áhyggjur af ástandi mála, ég verð að segja það. Ég veit ekki hvernig þessu vindur fram ef fram fer sem horfir, ef þetta á að vera hinn venjulegi gangur mála á ríkisstjórnarheimilinu. Ég verð að segja, frú forseti, að svona getur þetta auðvitað ekki gengið lengur.

Ég virði auðvitað sannfæringu hv. þm. og sannfæringu okkar allra, maður lifandi. Það væri verra ef fólk fengi ekki að tala hug sinn á þingi. En það er harla óvenjulegt að þannig sé í pottinn búið hjá fylgismönnum ríkisstjórnarinnar. Gangur mála hefur yfirleitt verið sá að menn hafi verið píndir á takkana, rauða eða græna eftir efnum og ástæðum. Nú bregður nýrra við sem gerir það að verkum að ég er dálítið ruglaður í ríminu.

Ég frábið mér þá einkunnagjöf að ég sé að efna til ófriðar. Það er engin þörf á því. Ófriðurinn er nægur fyrir. Ég er hér sem friðarpostuli, vil stilla til friðar og reyna að koma skikkan á þessi mál svo að við hv. þingmenn áttum okkur á hver er stefna ríkisstjórnarinnar, þeirra sem fara með stjórn í þessu landi.

Stjórnarmeirihlutinn er afskaplega naumur. Við skulum ekki gleyma því, virðulegi forseti. Það eru fimm atkvæði sem skilja á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það þarf harla lítið til að þessi ríkisstjórn sé liðin tíð. Ég græt það ekki sérstaklega en ég vil átta mig á því hvort hér sé eitthvað undirliggjandi sem geri það að verkum að við í Samfylkingunni þurfum að fara að búa okkur sérstaklega undir það að taka við stjórnartaumunum, ekki bara í þessu máli heldur yfirleitt. Það er kjarni málsins.

Yfir þetta mál almennt ætla ég að fara í ítarlegri ræðu minni á eftir. Það er sitthvað af viti í þessari tillögu og ég get farið yfir það í rólegheitum á eftir. En kjarni málsins er að ríkisstjórnin verður að finna taktinn í þessu. Hæstv. landbrh., þú verður að kippa aðeins í taumana.

(Forseti (JóhS): Ég vil minna hv. þm. á að það á beina orðum sínum til forseta en ekki einstakra þingmanna eða ráðherra.)