Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:13:59 (1161)

2003-11-04 18:13:59# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það verður að segjast að það er greinilega runnin upp ný tíð hér í þingsölum. Stefna ríkisstjórnar í því máli sem hér er til umfjöllunar er afar óljós. Maður veltir því fyrir sér hvort við eigum von á að í fleiri málum komi svipaðar tillögur fram.

Hv. þm. sem hér flutti ræðu áðan tilkynnti að hann hefði sannfæringu. Hv. þm. tilkynnti einnig að honum bæri að fara eftir sannfæringu sinni. Nú vill svo til að ég var á fundi með hv. þm. ekki alls fyrir löngu norður á Siglufirði. Þar var verið að fjalla um frestun Héðinsfjarðarganga. Þar heyrði ég ekki betur en hv. þm. hefði mikla sannfæringu. Því spyr ég hv. þm.: Megum við eiga von á því að hv. þm. komi, m.a. til mín og annarra hv. þm., og spyrji hvort þeir vilji vera samflutningsmenn að tillögu um að hæstv. samgrh. fái nokkra valkosti um hvenær skuli hefja gerð Héðinsfjarðarganga? En hv. þm. hefur lýst yfir andstöðu sinni við þá frestun sem ákveðin hefur verið.

Frú forseti. Það hlýtur að vekja athygli þegar slíkur fjöldi þingmanna úr stjórnarliðinu leggur fram tillögu sem þessa og hvort það er fyrirboði um vinnubrögðin innan stjórnarliðsins. Megum við búast við að sjá slíkar tillögur ef andstaða er í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna? Komum við til með að sjá fleiri tillögur sem þessar?

Ég tek undir það með hv. þm. að við höfum haft miklar áhyggjur af stöðu þingsins gagnvart þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Það er greinilegt að þær áhyggjur eru nú komnar í þingflokka ríkisstjórnarflokkanna. Ég vona að það boði að menn taki það alvarlega að við búum við þingræði eins og hv. þm. sagði.

Frú forseti. Ég tel nauðsynlegt að fá skýr svör um það frá hv. þm. hvort við megum eiga von á því í áðurnefndu máli að svipuð tillaga komi fram.