Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:17:30 (1163)

2003-11-04 18:17:30# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Frú forseti. Rétt er að draga úr áhyggjum hv. þm. að það var ekki aðalmál landsfundar Samf. hvernig fara skyldi með rjúpnamálið í þingflokkum stjórnarflokkanna. Við höfðum ýmislegt annað um að ræða.

Hins vegar verður að segja, frú forseti, að það er auðvitað sérkennileg staða hæstv. ráðherra sem fær slíka tillögu fram borna af slíkum fjölda stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar. Frá því verður ekki litið. Þess vegna, frú forseti, spurði ég hv. þm. hvort við ættum von á fleiri tillögum sem þessari varðandi önnur mál þar sem hv. þm. og ég trúi fleiri hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa sannfæringu í og legg ég mikla áherslu á að það er auðvitað ánægjulegt að hv. þm. skuli leggja svo mikið upp úr sannfæringu sinni í þessu máli og ég vænti þess að það sé í öllum málum svo. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Það er eðlilegt að hv. þm. spyrji eftir stefnu Samf. í málinu vegna þess að ljóst er að ekki finnur hann stefnu Framsfl., ekki finnur hann stefnu Sjálfstfl. í málinu því að þeir flokkar eru ekki samstiga í málinu og ég hugsa, hv. þm., ef grannt verður skoðað, þá sé það líka þannig í Samf. Þannig sé það í flestum flokkum að menn eru ekki nákvæmlega samstiga í málinu frekar en ýmsum málum af þessari gerðinni.

Frú forseti. Einni spurningu er þó algerlega ósvarað. Hvernig var þetta mál, eins og önnur mál sem ég vænti að ráðherrar flytji í þinginu eða taki ákvörðun um, afgreitt í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna? Hvernig var þetta mál afgreitt í þingflokki Framsfl.? Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. viti hvernig það var afgreitt í þingflokki Sjálfstfl. en við sjáum það á flutningsmannafjöldanum að það liggur nokkuð ljóst fyrir hvernig sú afgreiðsla hefur verið ef afgreiðslan hefur átt sér stað. (Gripið fram í: Þetta liggur ljóst fyrir, það þarf ekkert að svara því.) Ég spurði ekki um deilur Sjálfstfl.