Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:19:54 (1164)

2003-11-04 18:19:54# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:19]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hér er vissulega stórt mál til umræðu og talsvert tilfinningamál. En það er líka mál sem snýr að einni auðlind sem íslensk þjóð á og þarf að virða og fara vel með sem er veiðiréttur á litlum fugli sem hefur auðvitað fullan rétt til að fá að lifa í landinu og dafna þannig að nýta megi afurðir rjúpunnar sé til framtíðar horft.

Hér liggur fyrir einhver frjálslyndasta tillaga á þessu þingi sem flutt hefur verið um langa hríð þar sem flutningsmenn telja upp allar leiðir til að vernda rjúpuna, nema þá einu að friða hana frá skotveiðimönnum í þrjú ár, svo hún megi dafna. Við getum séð að þremur árum liðnum hvort hún hefur náð aftur því flugi og þeirri fjölgun sem okkur dreymir alla um. Þess vegna er þetta ekkert smámál og ég verð að segja fyrir mig að ég virði og stend með hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttur í málinu. Ég tel að hún hafi tekið kjarkaða afstöðu en um leið einu ákvörðunina sem gat komið til greina við þessar aðstæður til að sjá hvort rjúpnastofninn stækkar ekki á ný, til að geyma þessa auðlind svo að íslenskir skotveiðimenn geti átt hana áfram í landinu.

Einnig er stór spurning við þessar aðstæður: Hvers vegna geta íslenskir vísindamenn ekki svarað því hvað hefur komið fyrir rjúpnastofninn? Hefur orðið umhverfisslys í stofninum? Hvers vegna er rjúpan stödd eins og hún er stödd? Við verðum auðvitað að velta því fyrir okkur.

Ljóst er að þeir menn sem fóru til fjalla í haust að smala, þeir mörgu Íslendingar sem hafa verið á hálendinu í sumar hafa vart séð rjúpu. Sterkustu hagsmunaaðilar, bændurnir sem hafa haft þetta fyrir auðlind og haft af því tekjur hafa margir ekki gengið til veiða í tvö eða þrjú ár af virðingu fyrir rjúpnastofninum. Þeir hafa sagt: Við skjótum ekki rjúpu sem ekki er til. Og hvers vegna ætlast stór hluti þingsins til þess að íslenskir skotveiðimenn skjóti rjúpur sem ekki eru til? Ég spyr.

Staðreyndin er sú að allir þeir mörgu ferðamenn sem fara um Ísland vitna um að rjúpan er ekki til og þess vegna ber okkur að virða þá tilraun sem hæstv. umhvrh. hefur nú sett í gang að friða rjúpnastofninn í þrjú ár sem tilraun til að sjá hvað gerist við þær aðstæður og ég vil sannarlega taka undir þá skoðun. Hvers vegna halda hv. þingmenn að refurinn sé kominn til byggða? Hvers vegna halda þeir að refurinn sé núna fluttur af fjöllum og kominn niður á mýrarnar og í mólendið í Flóanum? Refurinn færir sig til í landinu eftir æti. (Gripið fram í: Þeir búa fyrir austan.) Það hefur aldrei verið talað um í fæðingarsveit minni sem liggur fyrir austan Selfoss að þar þekktist refur. Nú er búið að taka þar mörg greni í sumar og þar er mikið af ref sem aldrei var. Refurinn hefur farið af fjöllunum vegna þess að rjúpan er ekki til. Hann er að leita í annað æti, í mófuglinn.

Við skulum við þessar aðstæður líka velta því fyrir okkur hvort hæstv. umhvrh. og fleiri þurfi ekki að huga að því líka að stofnstærð minksins og refsins við þessar aðstæður er í hámarki. Kannski þarf þingið fremur að koma að því umræðuefni í dag, heldur en að leika sér í kringum litla rjúpu, að spyrja sig: Þurfum við ekki að endurskipuleggja þær veiðar og takast á við það verkefni að halda þeim stofnum í lágmarki til að rjúpan fái að þroskast í landinu? Að þessu öllu þurfum við að spyrja okkur við þessar aðstæður.

Enginn vafi er á því að þegar ljóst er að fiskstofnar í hafinu eru í hættu, þá drögum við úr ásókn eða hættum veiðum. Ef það gerist í íslenskum laxveiðiám að fiskurinn hverfur, þá fækka menn stöngum eða hætta veiðum um sinn til að sjá hvað gerist. Og það er nákvæmlega þetta sem verið er að gera í kringum rjúpuna og hefur verið gert í kringum svo margar aðrar auðlindir á Íslandi. Hún er ekki bara gamanmál, rjúpan. Hún á hér búseturétt. Hún er auðlind sem okkur langar að hafa til þess að frjálsir veiðimenn geti gengið á fjöll og heiðar til að sækja hana, en við þessar aðstæður er það því miður ekki hægt. Þess vegna er gripið til þeirra örþrifaráða sem hér blasa við í dag, að við ætlum að friða hana í þrjú ár og sjá hvort hún dafnar ekki á nýjan leik.

Ég tel því að þingið verji betur tíma sínum með því að sundrast ekki í þessu máli. Stundarhagsmunir mega ekki ráða ferð heldur sameinast um þessa ákvörðun og velta hinu fyrir sér hvort við þurfum ekki að taka á refnum og minknum, hvort við þurfum ekki að leita allra leiða til að kanna hvað kom fyrir rjúpnastofninn, hverjir bera ábyrgð á því. Er það náttúran sjálf, refurinn og minkurinn, eða eru það skotveiðimennirnir að svo er komið um leið og við sitjum yfir því stóra verkefni að setja nýjar reglur um veiði þessa fugls eins og hæstv. umhvrh. hefur lagt til að gert verði á umræddu tímabili.

Ég trúi því að það komi nýr tími með blóm í haga og rjúpu á jólaborð. En íslensk rjúpa getur það ekki orðið næstu þrjú árin, því miður. Staða fuglsins í landinu er þannig um þessar mundir.