Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 18:42:22 (1174)

2003-11-04 18:42:22# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[18:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna og þakka þessa ræðu. Ég veit að hv. þm. Gunnar Birgisson ber mikla virðingu bæði fyrir skotveiðimönnum og rjúpunni. Mér fannst ég finna það í þessari ræðu að hann muni ekki hleypa af skoti í haust. Hann getur áreiðanlega í hjarta sínu nú eftir ræðu mína áðan fallist á það sjónarmið að það beri að sjá til, sjá hvað gerist í eitt ár, sjá hvað gerist í tvö ár. Kannski verður hægt að ganga til veiða í frjálsri náttúru og kannski hefur rjúpnastofninn stækkað eftir þrjú ár. Það hefur hæstv. umhvrh. auðvitað í hendi sér með Alþingi á bak við sig að hefja veiðar.

Ég hygg að við séum sammála um það sem hér hefur komið fram, að refurinn og minkurinn hafa haft of mikið æti og það er skylda þingsins að huga að því nú hvernig menn geti haldið þeim stofnum í skefjum. Því miður er það að verða skoðun margra vísindamanna að þessa stofna eigi helst að láta í friði og að þeir eigi að fá að ferðast frá firði til fjarðar og veiða sér til átu. Ég minnist þess þegar ég kom í Þingvallanefnd að þá var eitt það fyrsta sem við gerðum þar að setja veiðar í gang í þjóðgarðinum undir ströngum reglum til þess að fækka bæði ref og mink þar. Fuglalífið kom til baka. Fiskurinn kom til baka í vatninu og náttúran nýtur sín betur á eftir. Þess vegna er það skylda okkar að halda refastofninum í skefjum og reyna að sækja dálítið hart að minknum því að hann veldur miklum skaða í ám og vötnum þessa lands og er að ganga mjög hart að mófuglinum eins og refurinn.