Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 19:02:52 (1179)

2003-11-04 19:02:52# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[19:02]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað athyglisvert að þetta mál fékk eðlilega meðferð í þingflokki Sjálfstfl. Það segir okkur að 14 þingmenn af 22 hafa væntanlega lagst gegn því og það lítur hv. þm. á sem eðlilega meðferð og að eftir slíka meðferð í þingflokki sé eðlilegt að málið fái framgöngu í ríkisstjórn, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt, þ.e. ef meiri hluti þingflokks annars stjórnarflokksins leggst gegn máli sé eðlilegt að það fái samt framgöngu í ríkisstjórn. Þetta held ég að verði að teljast afar óvenjulegt, að þannig séu mál afgreidd í samstarfi tveggja flokka í ríkisstjórn. En hugsanlega eru það nýir hættir hjá ríkisstjórninni að þannig séu mál afgreidd.

Frú forseti. Hv. þm. sagði að það væri ekki verið að biðla til Samf. Ég tók hins vegar eftir því í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar sem orðaði það, ef ég man rétt, með leyfi forseta, að það væri eðlilegt að fá að ,,kanna vilja þingsins í þessu máli``. Frú forseti. Að ,,kanna vilja þingsins í þessu máli`` hlýtur að vera það að kanna hver viljinn sé hjá stjórnarandstöðuflokkunum því að stjórnarflokkarnir ættu að geta kannað það sjálfir hver viljinn er í þeirra eigin þingflokkum og a.m.k. er ljóst að það er meiri hluti fyrir þessu máli í þingflokki Sjálfstfl. Það er augljóst mál að eftir því er verið að leita hver afstaða stjórnarandstöðunnar er í málinu.

Ég vil segja hv. þingmanni að þar sem örlítill vafi leikur á að hér sé um alvörufrv. að ræða held ég að það væri eðlilegt fyrir flokk eins og Samf. að bíða og sjá hverjar lyktir málsins verða í nefnd og sjá hvernig málið mun líta út að lokum.