Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 19:37:06 (1190)

2003-11-04 19:37:06# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[19:37]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér láðist að svara fyrirspurn sem borin hafði verið til mín í fyrri ræðu hv. þm. Þannig er að við höfum fengið spurningar frá hv. þingmanni og ég held að ég fari rétt með að það er búið að svara hluta af þeim en það vantaði einmitt upplýsingar um hvort það væri tölfræðilega marktækur munur á þessu lágmarki sem er núna og fyrri lágmörkum. Upplýsingar mínar frá Náttúrufræðistofnun eru þær að þeir eru að ganga frá endanlegu svari til hv. þingmanns þannig að það er von á því mjög bráðlega. Það er leitt hvað dregist hefur að svara þessu en ég tel að það sé búið að svara hluta af því sem þingmaðurinn falaðist eftir, þ.e. að veita upplýsingar um gögnin sem við byggðum ákvörðun okkar á.

Varðandi stöðu rjúpnastofnsins er hann í lágmarki en hann er ekki í útrýmingarhættu. Sumir hafa haldið því fram að stofninn sé í útrýmingarhættu. Svo er ekki en hann er í lágmarki og það sem er alvarlegt í stöðunni er að hann hefur ekki verið að sveiflast eins og hann á að gera. Sveiflurnar eru að jafnast út þannig að það er tæpast hægt að segja að við stundum þessar veiðar með sjálfbærum hætti eins og þetta er í dag. Reyndar ber að taka fram að það eru margar ógnir aðrar sem steðja að þessum stofni en veiðarnar. Veiðarnar eru sá hluti sem við getum haft áhrif á með auðveldustum hætti og þess vegna er gripið til þessa banns.