Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 19:46:49 (1199)

2003-11-04 19:46:49# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[19:46]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur það komið skýrt fram hjá hæstv. umhvrh., og staðfest það sem hæstv. landbrh. sagði áðan, að það voru engir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sem andmæltu þessu. Þess vegna hlýtur það að vera rétt sem Guðni Ágústsson, hæstv. landbrh., sagði áðan að það megi líta á þetta sem samþykkt í ríkisstjórn.

Þá er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar 17 stjórnarþingmenn flytja hér tillögu sem gengur þvert á það sem ráðherrann er að boða. Það má í raun og veru kalla það vantrauststillögu á þá ákvörðun sem hefur verið tekin, sem er auðvitað mjög alvarlegt mál.

Nú ætla ég að taka það skýrt fram og ítreka það sem ég sagði áðan: Ég hef ekki myndað mér fullkomna skoðun um það hvort þetta bann og þessi ákvörðun eigi að vera það sem gildir, en mér finnst mjög merkilegt hvað margir veiðimenn eru sammála því að rjúpnastofninn sé í sögulegu lágmarki. Þess vegna vil ég spyrja í lokin: Kom það ekki til tals, hæstv. ráðherra, að stytta veiðitímann á þessu veiðiári um helming og hafa hann t.d. --- vegna þess að það var spurt um það áðan -- frá 15. október til 15. nóvember?