Aflétting veiðibanns á rjúpu

Þriðjudaginn 04. nóvember 2003, kl. 19:49:11 (1201)

2003-11-04 19:49:11# 130. lþ. 20.14 fundur 154. mál: #A aflétting veiðibanns á rjúpu# þál., Flm. GunnB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 130. lþ.

[19:49]

Flm. (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera harla merkileg og góð umræða um þetta ágæta mál. Málið byrjar náttúrlega í umhvn. sl. vor þar sem afarkostir frá umhvrh. koma til nefndarinnar og nefndinni var stillt upp við vegg: Annaðhvort sölubann eða.

Við í nefndinni mæltum með styttingu veiðitíma ásamt öðrum atriðum sem er búið að fara í gegnum í þessari umræðu. Á það var ekki hlustað og hæstv. ráðherra setti veiðibann. Því erum við ósammála, flutningsmenn þessarar þáltill.

Hæstv. ráðherra vitnar mikið í sérfræðinga og grein í Morgunblaðinu sem Jón Gunnar Ottósson og fleiri skrifuðu. Það hafa fleiri skrifað í Morgunblaðið sem hafa töluvert vit á fuglum, eins og Arnór Sigfússon, sem mælti með sölubanni, mælti á móti veiðibanni og er hann þó doktor í greininni. Þessir sérfræðingar eru því ekki allir sammála um málið.

Við viljum öll, held ég, hvort sem við erum með þessari þáltill. eða á móti, vernda rjúpnastofninn. En við sem flytjum þessa þáltill. viljum að veiðin verði minni en það verði hægt að stunda sjálfbærar veiðar á stofninum. Það er okkar hugsun.

Það hefur verið talað mikið um tófu og mink og það er alveg ljóst að mikil fjölgun tófunnar og minksins hefur ekki gert rjúpunni auðvelt fyrir. Kannski er of seint farið að taka á því. Kannski þarf að gera hluti án þess að vera í endalausum nefndarstörfum fram eftir ári. Það þarf kannski að taka ákvörðun og gera hlutina.

Hæstv. ráðherra sagði og tuggði það margoft að 200 millj. kr. hefðu farið í að greiða veiðar á minki á sjö árum. Það er innan við 30 millj. kr. á ári sem er ekki mikið. Það eru ekki margir menn sem geta verið á launum við það, hist og her um landið. Aftur á móti var ég ánægður þegar hæstv. ráðherra sagði að spurning væri að leyfa veiðar á tófu og mink og gefa þær frjálsar, ég held að það væri hið besta mál.

Ég legg til að þessari þáltill. verði vísað til hv. umhvn. og til síðari umr. Þar fær þessi þáltill. vonandi góða umfjöllun í nefndinni. Það er hægt að fara yfir vísindaleg rök í málinu og vonandi kemur þessi þáltill. aftur inn í þingið þar sem þingið getur tekið afstöðu til hennar og fengið meiri upplýsingar um hana.

Það voru merkilegar spurningar sem voru tíndar til af hv. þm. Framsfl. áðan og hann hafði ekki fengið svör við. En vonandi fáum við það nú allt saman í umhvn. þegar þetta verður tekið þar til umfjöllunar.

Að lokum vil ég þakka fyrir góða umræðu um þetta mál í dag.