Endurskoðun stjórnarskrárinnar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 13:42:53 (1205)

2003-11-05 13:42:53# 130. lþ. 21.1 fundur 67. mál: #A endurskoðun stjórnarskrárinnar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Ég skil vel að tíminn reynist stuttur til að svara máli af þessu tagi í fyrirspurnatíma. Mér heyrðist reyndar svarið efnislega vera prýðileg uppistaða í bréf sem væri tilvalið að senda forustumönnum stjórnmálaflokkanna í framhaldi af þessum orðaskiptum og koma málinu þar með af stað.

Ég lýsi mig í öllum aðalatriðum sammála þeirri nálgun sem hæstv. forsrh. mælti fyrir, að taka fremur fyrir einstaka kafla stjórnarskrárinnar en að setja endurskoðunarnefnd að störfum sem hafi allt undir. Ég held að það verði ekki um það deilt að m.a. I. og II. kafli stjórnarskrárinnar, ramminn um stjórnskipunina og stjórnarfarið, mættu vel við því að vera færðir upp til nútímans.

Ég vil bæta við þau dæmi sem hæstv. forsrh. nefndi sérstaklega, stöðu þingsins og forseta Alþingis hvað varðar ákvarðanir um að kveðja þing saman og slíta því. Í raun tel ég algera tímaskekkju að það vald sé ekki alfarið í höndum þingsins sjálfs og að utanaðkomandi aðilar eins og forseti lýðveldisins og forsrh. séu þar með hlutverk. Langeðlilegast er, og í samræmi við þingræðisregluna sem nefnd var, að þingið hafi alfarið með þá hluti að gera.

Ég tel líka að endurskoða eigi í þessu samhengi spurningar um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og það hvernig stjórnarskrárbreytingar eru staðfestar. Hvort tveggja fellur vel saman og gæti líka tengst því hvort sérstakar reglur verða teknar upp í tengslum við afgreiðslu milliríkjasamninga eða þjóðréttarsamninga. Þar væru kannski tvær leiðir færar eftir því hvort um einfaldari eða viðameiri gjörninga væri að ræða.

Ég fagna þessu svari sérstaklega og endurtek þakkir fyrir að þetta mál komist nú í farveg. Að sjálfsögðu erum við öll örugglega sammála um að um þessa hluti ber að leita algerrar pólitískrar samstöðu.