Endurskoðun stjórnarskrárinnar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 13:45:11 (1206)

2003-11-05 13:45:11# 130. lþ. 21.1 fundur 67. mál: #A endurskoðun stjórnarskrárinnar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil víkja að nokkrum öðrum punktum sem ég náði ekki í fyrra svari mínu. Ég tek undir með hv. þm. að það kann að vera ástæða til að halda áfram að fara yfir skipulag Alþingis gagnvart stjórnarskrá, hyggja að fleiri atriðum er þá koma til skoðunar, svo sem um störf og starfshætti þingsins eins og hv. þm. nefndi. Þá geymir stjórnarskráin til að mynda ekkert ákvæði um eftirlitsstofnanir Alþingis ef frá er talið fyrirheit í 43. gr. um að ríkisendurskoðun skuli fara fram á þess vegum. Til greina virðist geta einnig komið að treysta stöðu umboðsmanns Alþingis í sessi í stjórnarskrá og ýmsar hugmyndir hafa komið fram um með hvaða hætti mætti efla áhrif fjárlaga sem hagstjórnartækis. Sumar þeirra rúmast þó ekki innan þeirra takmarka sem ákvæði stjórnarskrárinnar um fjárlög setur, svo sem efni þeirra og gildistíma. Þá hefur verið rætt um hvort mætti mæla með skýrari hætti fyrir um rétt þingmanna til að krefja ráðherra upplýsinga um opinber málefni og skyldur ráðherra til að láta þær í té.

Loks er í V. kafla stjórnarskrárinnar um dómsvaldið helst til fátæklegt að mínu mati og sumt mætti þar orða á nútímalegri og greinarbetri hátt. Það á t.d. við um úrskurðarvald dómstóla um valdmörk stjórnvalda. Þá mætti taka upp ákvæði um að dómstólar eigi úrskurðarvald um hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrá eins og löng réttarvenja er fyrir. Þá er ekki minnst á æðsta dómstól landsins í stjórnarskrá né heldur meðferð ákæruvalds eða saksóknara, svo maður telji bara upp nokkur atriði.

Síðan hafa á undanförnum tíma komið fram ábendingar um að ástæða kunni að vera að huga að sérstaklega meðferð valdheimilda ríkisins í samskiptum við aðrar þjóðir og fjölþjóðastofnanir. Til að mynda hefur prófessor Davíð Þ. Björgvinsson verið ötull talsmaður þess og ég minni á að Samf. hefur í þáltill. um endurskoðun stjórnarskrárinnar í tilefni af heimastjórnarafmæli gert tillögu um að tekið verði á stjórnarskrárheimild um framsal ríkisvalds með ákveðnum formerkjum. Það er því fullt af hlutum sem menn geta farið yfir og eru athygli verðir. Ég er ekki að lýsa skoðun minni á þeim atriðum en vek athygli á að á þessu virðist vera þörf og ég ítreka að ég er tilbúinn til samstarfs við forustumenn stjórnmálaflokkanna um þessi atriði og vinnu í framhaldi af því.