Árósasamningurinn

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 13:47:15 (1207)

2003-11-05 13:47:15# 130. lþ. 21.2 fundur 62. mál: #A Árósasamningurinn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á vorþingi árið 2001 lagði hæstv. utanrrh. fram till. til þál. um fullgildingu Árósasamningsins sem fjallar um aðgang að upplýsingum og þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Það var í samræmi við samstarfsyfirlýsingu sem hæstv. umhvrh. hafði gert við frjáls félagasamtök á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála, yfirlýsingu sem undirrituð var í marsmánuði árið 2001. Í þeirri yfirlýsingu er skýrt kveðið á um það að aðilar séu sammála um þýðingu frjálsra félagasamtaka, þau gegni mikilvægu lýðræðislegu hlutverki í umræðu um umhverfismál og í því skyni að tryggja og efla það hlutverk þeirra verði leitað heimildar Alþingis til að staðfesta Árósasamninginn frá 1998. Dráttur hefur orðið á þessu og við höfum átt skoðanaskipti í sölum Alþingis um þessi mál við hæstv. utanrrh. áður. Hann sagði t.d. í umræðum í febrúar árið 2003 að Árósasamningurinn væri jú merkilegur en legði nýjar skuldbindingar á herðar okkar sem ekki yrði auðvelt að standa undir miðað við íslenskar aðstæður. Hann gat þess að þess vegna hefði verið ákveðið að ákvæði samningsins yrðu tekin til mjög ítarlegrar umfjöllunar. Síðasta vor var ekki tilbúin niðurstaða í því sambandi og hæstv. ráðherra taldi að það biði nýrrar ríkisstjórnar að gera eitthvað í því máli.

Í tilefni af þessu öllu saman, í tilefni af því að nú er komin ný ríkisstjórn, tel ég eðlilegt að endurnýja umræðuna um málið og sérstaklega líka í ljósi þál. sem samþykkt var í sölum Alþingis í maí 2002, sem mér skilst að ekkert hafi verið gert með. Þar á ég við ályktun sem fól ríkisstjórninni að skipa nefnd sem mundi gera úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á sviði náttúruverndarmála á Íslandi og henni var gert að skila tillögu til ríkisstjórnarinnar um hvernig samskiptum stjórnvalda við slík samtök yrði best háttað og með vísan til skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningi sem undirritaður var í Árósum í júní 1998. Sem sagt, stjórnvöld hafa verið að viðurkenna í orði tilvist þessa samnings. Hann hefur verið undirritaður að sjálfsögðu fyrir Íslands hönd en ekkert bólar á því að fara eigi í fullgildingarferlið. Af þessum ástæðum legg ég eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. utanrrh.:

1. Hvað líður skoðun stjórnvalda á áliti réttarfarsnefndar frá 2001 um mögulegar lagabreytingar sem gera þyrfti áður en Ísland gæti staðfest Árósasamninginn frá 25. júní 1998, um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum?

2. Hver er afstaða annarra Norðurlandaríkja til sömu álitamála og hvað líður staðfestingu þeirra á Árósasamningnum?