Árósasamningurinn

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 13:50:33 (1208)

2003-11-05 13:50:33# 130. lþ. 21.2 fundur 62. mál: #A Árósasamningurinn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Samkvæmt áliti réttarfarsnefndar mundi fullgilding Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum af Íslands hálfu óhjákvæmilega kalla á umtalsverðar breytingar á íslensku réttarfari. Í fyrsta lagi telur nefndin að nokkur ákvæði samningsins, einkum 2. mgr. 9. gr., samanber 5. mgr. og 2. gr., stangist á við þá grundvallarreglu íslensks réttarfars að sá sem höfði dómsmál verði sjálfur að eiga lögvarða hagsmuni að því að fá leyst úr þeim kröfum sem hann gerir þar.

Í öðru lagi telur nefndin að lög nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, einkum 6. gr. laganna, tryggi ekki þá kröfu 1. mgr. 9. gr. samningsins að almenningur verði að geta leitað til annarrar sjálfstæðrar og óhlutdrægrar stofnunar en dómstóla sér að kostnaðarlausu eða gegn óverulegu gjaldi.

Í þriðja lagi telur nefndin að 4. og 5. mgr. 9. gr. samningsins stangist á við gildandi reglu um gjafsókn í XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, annars vegar og um lögbannstryggingu samanber 30. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., hins vegar. Að fengnu áliti réttarfarsnefndar var komið á fót óformlegum starfshópi umhvrn., utanrrn. og dómsmrn. um að athuga stöðu Árósasamningsins gagnvart íslenskum lögum og hvaða breytingar þyrfti að gera á þeim til að uppfylla þær skuldbindingar sem samningurinn kveður á um. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að fullgilding samningsins mundi kalla á yfirgripsmiklar breytingar á íslenskum lögum. Starfshópurinn er í meginatriðum sammála niðurstöðum réttarfarsnefndar en telur að jafnframt þyrfti að gera ýmsar aðrar breytingar m.a. á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og ýmsum sérlögum. Tekið skal fram að hinum óformlega starfshópi var ekki falið að útfæra hugsanlegar lagabreytingar nákvæmlega eða taka afstöðu til mismunandi leiða í því sambandi.

Nýlega var ákveðið að skipa formlegan starfshóp undir forustu umhvrn. til að gera nákvæma úttekt á þeim lagabreytingum sem fullgilding Árósasamningsins hefði í för með sér. Umræddar lagabreytingar varða málefni ýmissa ráðuneyta og er gert ráð fyrir að fulltrúar dóms- og kirkjumrn., iðnrn., landbrn., sjútvrn. og utanrrn. auk umhvrn. eigi sæti í þeim starfshóp.

Að því er varðar aðra spurningu vil ég taka fram eftirfarandi. Löggjöf á Norðurlöndum er ekki einsleit á þeim sviðum sem hér um ræðir. Því er mismunandi að hve miklu leyti einstök norræn ríki hafa þurft eða munu þurfa að breyta löggjöf sinni til að gera þeim kleift að fullgilda Árósasamninginn og hvaða leiðir þau hafa valið í því sambandi. Danmörk fullgilti samninginn 29. september árið 2000 og Noregur fullgilti hann 2. maí sl. Í Finnlandi og Svíþjóð er unnið að fullgildingu samningsins en í Svíþjóð er talið að fullgilding kalli á stjórnararskrárbreytingar og því ljóst að málsmeðferðin þar mun taka nokkurn tíma.