Árósasamningurinn

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 13:54:43 (1209)

2003-11-05 13:54:43# 130. lþ. 21.2 fundur 62. mál: #A Árósasamningurinn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin. Það er heldur betur mikið sem þarf að gera virðist vera til að fullgilda þennan samning. Manni finnst það satt að segja skjóta skökku við þegar verið er að undirrita stóra og mikla alþjóðasamninga þar sem ráðherrar taka þátt í að vinna jafnvel undirbúningsvinnu eða ráðuneytin taka þátt í undirbúningsvinnunni og jafnvel skuli þingmál líta dagsins ljós í sölum Alþingis Íslendinga, þá skuli eftir á koma í ljós að gera þurfi allar þessar gífurlegu breytingar, umfangsmiklar breytingar á íslenskri löggjöf til að leiða viðkomandi samning í lög.

Mér er kunnugt um, herra forseti, að Evrópusambandið sé búið að setja fram ein tvö ,,dírektív`` sem byggja á þessum samningi sem kveði svo á að Evrópusambandslöndin eigi að lögleiða ákvæði samningsins. Ég veit ekki betur en það falli undir EES-samninginn þannig að það virðist vera stutt í að tilskipun komi frá Evrópusambandinu að við þurfum að leiða þetta í lög. Þess vegna er það frekar önugt að ríkisstjórnin skuli vinna á hraða snigilsins að þessu máli því að hér er um mjög áríðandi og aðkallandi réttarbætur fyrir umhverfissamtök að ræða. Mér er kunnugt um að á Norðurlöndum, t.d. í Finnlandi og Noregi, sé löggjöfin beinlínis túlkuð umhverfissamtökunum í hag. Þannig hafa þeir gert það í Noregi og í Finnlandi hafa þeir leyft náttúruverndarsamtökum að lögsækja á grundvelli laga um náttúruvernd. Ég verð því að segja, herra forseti, að ólíkt hafast ríkisstjórnir Norðurlandanna að í þessum efnum. Ég veit að sænska ríkisstjórnin og umhverfisráðuneytið er að bjóða til sérstakrar ráðstefnu á morgun um málefni samningsins, þannig að hjá þessum frændþjóðum okkar er allt í fullum gangi við að innleiða þetta. Mikil umræða er þar í samfélaginu um þessi mál og ég hvet til þess að íslensk stjórnvöld standi vörð um slíka umræðu hér.