Árósasamningurinn

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 13:56:59 (1210)

2003-11-05 13:56:59# 130. lþ. 21.2 fundur 62. mál: #A Árósasamningurinn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er rétt að þegar utanrrn. ákvað á sínum tíma að leggja þetta mál fyrir Alþingi gerðum við það í þeirri góðu trú að viðkomandi samningur kallaði ekki á lagabreytingar hér á landi. Það er vissulega gagnrýnivert, en það er sannleikur málsins. Síðan kemur í ljós við nánari skoðun að íslensk löggjöf þarf að taka miklum breytingum til að hægt sé að fullgilda þennan samning. Ég tel það vera skyldu okkar að fara vandlega yfir málið og hrasa ekki að neinu í svo umfangsmiklu máli fyrr en við vitum nákvæmlega hvað það þýðir. Ég veit að það verður mjög umdeilanlegt hvort í þær lagabreytingar skuli fara. Vel má vera að hv. þm. sé þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt að fara í þær lagabreytingar, ég skal ekkert fullyrða um það. En þetta er kjarni málsins og okkur ber að hafa þar vönduð vinnubrögð.

Það sést best á því að t.d. í Svíþjóð er talið að það kalli á stjórnarskrárbreytingu. Hér á undan var verið að tala um stjórnarskrána og ég tel að okkur beri að bera þá virðingu fyrir lögum og stjórnarskrá landsins að við fullgildum ekki samninga sem við teljum að geti stangast á við hana jafnvel þótt við höfum gert þau mistök sem hér skulu játuð að við lögðum fram þáltill. í góðri trú.