Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:27:10 (1220)

2003-11-05 14:27:10# 130. lþ. 21.5 fundur 92. mál: #A landbúnaðarstefna Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Það var mjög áhugavert að fylgjast með því sem var að gerast í sumar og það kom fram í þessari sömu frétt að kostnaður Finna hefði getað farið upp í 85 millj. evrur á ári við fyrstu hugmyndir sem voru um endurskoðun á landbúnaðarstefnunni, en verði 7 millj. Það eru miklar breytingar frá fyrstu hugmyndum. Ég var einmitt að vísa til þess að þar sem Evrópusambandið er ein stærð af þremur sem eru að takast á og ræða málin innan Alþjóðaviðskiptaskrifstofunnar þá getur nú verið að sú stefna verði ofan á og hafi áhrif á skuldbindingar okkar eins og fram kom í svari ráðherra í lokin.

Ég er þá að velta því fyrir mér, ef þetta er að ganga eftir, að þarna er frestun leyfð í tvö ár, segir hæstv. ráðherra. En verðum við ekki að fara að huga að því hvort það muni henta Íslandi og þá hvernig hægt væri að fara yfir í græna styrki í framtíðinni í stað þess að vera með þessa framleiðslubundnu styrki sem við erum með sem hafa að mörgu leyti verið mjög erfiðir. Það er áhugavert að heyra svar hæstv. ráðherra við því vegna þess að við getum að sjálfsögðu verið utan Evrópusambandsins og sagt að okkur varði ekkert um hvað gerist hjá þeim, en þeir eru gífurlega sterkur aðili innan samninganna hjá Alþjóðaviðskiptaskrifstofunni. Og ef það bíður okkar að verða að endurskoða landbúnaðarstefnuna þá er nú kannski fremur viturlegt að byrja að skoða hvernig við þurfum að sveigja hana þannig að þetta skelli ekki mjög illa á okkur og alvarlega.