Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:29:17 (1221)

2003-11-05 14:29:17# 130. lþ. 21.5 fundur 92. mál: #A landbúnaðarstefna Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við gerum okkur fulla grein fyrir því, vegna þeirra umræðna sem fara núna fram innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, að við munum þurfa að breyta ýmsu í styrkjum eða stuðningi við íslenskan landbúnað. Við erum fyrst og fremst með svokallaða græna styrki og svokallaða gula styrki og okkur sýnist að það verði tiltölulega minna mál fyrir okkur en ýmsa aðra að gera þarna breytingar á. Það er þegar byrjað að ræða það við Bændasamtökin og aðila í landbúnaðinum hvernig best sé að snúa sér í þessum málum. Ég er ekki að segja að það verði vandalaust, það er langt frá því. Hins vegar sýnist okkur að við séum í tiltölulega betri stöðu en vinir okkar í Noregi sem hafa notað annars konar styrki, svokallaða bláa styrki, og það verði þeim enn þá erfiðara að gera þær breytingar sem eru yfirvofandi.

Okkur sýnist því að það hafi verið haldið skynsamlega á málum á undanförnum árum og áratugum að því er varðar íslenskan landbúnað og að það verði auðveldara fyrir okkur að aðlagast þeim reglum sem líklegt er að verði breytt, á grundvelli samkomulags á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, en fyrir ýmsa aðra. En það má ekki draga úr þeim vanda sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir því hann þarf að mæta vaxandi erlendri samkeppni. En það eru allar líkur á því að íslensk stjórnvöld geti haldið áfram að auðvelda íslenskum landbúnaði að framleiða góðar vörur, sérstaklega fyrir okkur Íslendinga og okkar þjóð, enda eru útflutningshagsmunir okkar tiltölulega litlir.