Þátttaka sveitarstjórnarmanna í Evrópusamstarfi

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 14:55:44 (1230)

2003-11-05 14:55:44# 130. lþ. 21.7 fundur 212. mál: #A þátttaka sveitarstjórnarmanna í Evrópusamstarfi# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Enn þurfum við að ræða ýmsa þá agnúa sem fylgt geta því formi sem við höfum valið á samskiptum okkar við Evrópusambandið og ætti nú kannski að vera okkur íhugunarefni. En ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Mikilvægt er að hér fari fram meiri umræða en verið hefur um málefni sveitarstjórnarstigsins og var raunar kallað sérstaklega eftir því á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna fyrr í dag. Er það tímanna tákn að í setningu fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna var sérstaklega og ítrekað fjallað um þau miklu og margvíslegu áhrif sem tilskipanir Evrópusambandsins hafa haft á starfsemi sveitarfélaganna, þau auknu verkefni sem þeim hafa þar verið lagðar á herðar og þá margvíslegu sérstöðu sem íslensk sveitarfélög búa við og þyrftu að hafa mun greiðari leiðir til að koma á framfæri eins og hæstv. félmrh. hefur raunar áður á bent og hv. 1. þm. Reykv. n. hefur haldið til haga í umræðunni.