Úttekt á umfangi skattsvika

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:01:45 (1233)

2003-11-05 15:01:45# 130. lþ. 21.8 fundur 130. mál: #A úttekt á umfangi skattsvika# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Í maí 2002 var samþykkt hér á Alþingi þál. um úttekt á umfangi skattsvika, skattsniðgöngu og dulinni efnahagsstarfsemi. Tvívegis hefur umfang skattsvika verið kannað, árið 1984 og 1992. Niðurstaðan í fyrri úttektinni var sú að ætla mætti að umfang dulinnar starfsemi hérlendis væri á bilinu 5--7% af landsframleiðslu. Niðurstaðan frá árinu 1992 var sú að áætlaðar óframtaldar tekjur hefðu numið sem svarar tæpum 41/4 af landsframleiðslu. Þetta samsvaraði því að á árinu 1992 hefðu 16 millj. kr. ekki verið gefnar upp til skatts.

Í framhaldi af þessum úttektum voru gerðar verulegar endurbætur á skatteftirliti og skattrannsóknum, m.a. var komið á fót embætti skattrannsóknarstjóra og mikill árangur hefur í kjölfar þess náðst í hertu skatteftirliti og fjölgun mála sem tekin hafa verið til rannsóknar og skilað sér í umtalsvert auknum tekjum ríkissjóðs.

Ástæður fyrir því að tillagan var flutt á sínum tíma um að það skuli gerð úttekt nú tíu árum eftir að sú síðasta var gerð eru m.a. að í skýrslu sem var gerð fyrir tveimur til þremur árum um meðferð skattsvikamála komu fram verulegar efasemdir um að virðisaukaskattur skili sér nægilega vel í ríkissjóð.

Ásetningur virðist að dylja brotin með skjalafalsi. Ýmislegt hefur líka breyst í atvinnulífi og skattumhverfi fyrirtækja frá því að síðasta úttekt á skattsvikum fór fram á árinu 1992. Umsvif fyrirtækja og fjármálaviðskipta hafa vaxið mikið og tekið verulegum stakkaskiptum með auknu frjálsræði á fjármagnsmarkaði, opnara þjóðfélagi og sívaxandi alþjóðavæðingu.

Fjármagnsflæði milli landa er vaxandi þáttur atvinnulífsins og hafa skapast möguleikar á að skrá fyrirtæki erlendis og reikningsfæra umsvif fyrirtækja á erlendum vettvangi, m.a. til skatthagræðis. Rekstrarformi fyrirtækja hefur verið breytt og hlutafélagavæðing aukist, auk þess sem hægt hefur verið að stofna einkahlutafélög, sem hefur fjölgað gífurlega á undanförnum árum. Á það hefur ítrekað verið bent, m.a. af skattyfirvöldum, að með stofnun einkahlutafélaga skapist möguleiki á því að eigendur taki hluta launa sinna út í arðgreiðslum og greiði af þeim einungis 10% skatt í stað 38% í skatt. Mismunandi skattprósenta eftir uppruna tekna býður upp á alls konar skattundandrátt sem nauðsynlegt er að skoða.

Því var þessi tillaga flutt og hún samþykkt á Alþingi í maí 2002. Því er nú spurt:

Hvenær má vænta niðurstaðna starfshóps sem var skipaður samkvæmt þessari tillögu og skila átti niðurstöðum fyrir júlí á þessu ári?

Í öðru lagi er spurt: Mun ráðherra gera Alþingi grein fyrir niðurstöðunum strax og þær liggja fyrir og upplýsa hvernig brugðist verður við þeim tillögum til úrbóta sem starfshópnum var falið að leggja fram?