Úttekt á umfangi skattsvika

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:09:38 (1235)

2003-11-05 15:09:38# 130. lþ. 21.8 fundur 130. mál: #A úttekt á umfangi skattsvika# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að halda vel á þessum málum. En það er nú þannig að sumt er vel þekkt hvað varðar skattundandráttinn, það eru þjónustukaupin, þessi endalausa spurning um reikning eða ekki reikning. Við þekkjum öll að það fólk þykir furðufuglar sem biður um reikning með fullum virðisaukaskatti og öllu tilheyrandi. Sérstaklega eru þekktar sögurnar um viðhald húsa, þegar fólk er að kaupa þjónustu til viðgerða á húsum sínum. Mig furðar á því að ráðuneyti hæstv. fjmrh. skuli ekki nýta sér það tæki sem endurgreiðsla virðisaukaskatts af viðhaldskostnaði er, vegna þess að mundi vera liður í endurhæfingu fólks á því að það að fá reikning, borga reikning, borga skattana og fá þá endurgreidda á réttum stað sé eitthvað sem á að gera, en ekki að taka þátt í þessum leik.