Úrbætur í fjarskiptamálum í Norður-Þingeyjarsýslu

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:23:10 (1240)

2003-11-05 15:23:10# 130. lþ. 21.9 fundur 69. mál: #A úrbætur í fjarskiptamálum í Norður-Þingeyjarsýslu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, um leið og ég lýsi megnustu óánægju og vonbrigðum með þau. Mér finnst það neðan við allar hellur að ár eftir ár sé málum af þessu tagi þvælt fyrir fótum manna og þvílíkur aumingjaskapur hér á ferðinni að engu tali tekur. Auðvitað getur hæstv. samgrh., ef fyrirtækið stendur ekki sómasamlega að málum af þessu tagi, haldið hluthafafund, hann á fyrirtækið, og sagt því að gera það sem hann vildi í þessum efnum. Og að ráðuneytið hafi einhverja stefnu en síðan verði fyrirtækið að fá að taka þessar ákvarðanir á markaðslegum grunni. Það er þá aldeilis dómurinn um það undir hvaða aðstæður íbúar í afskekktum byggðum eru settir eftir að þessi fyrirtæki voru háeffuð. Ég tek þetta ekki gilt. Það er ekkert annað en aumingjaskapur að kippa þessum málum ekki í liðinn. Hreinir smáaurar þarna á ferðinni og ef ríkisstjórnin vill getur hún t.d. látið Símann draga frá arðgreiðslum í ríkissjóð einhver skilgreind verkefni af þessu tagi sem hún vill að ráðist sé í af pólitískum eða byggðapólitískum forsendum. Þetta er engin afsökun, hæstv. ráðherra, og hin mestu vonbrigði að menn tali með þessum hætti.

Og síðan er ráðuneytið að geta sér til um ástæður þess að fyrirtækið hafi ekki farið í þessar framkvæmdir. Segir að ráðuneytið geri ráð fyrir því að það séu arðsemissjónarmið fyrirtækis á markaði sem þarna ráði ferðinni. Þetta er ekkert venjulegt fyrirtæki á markaði. Það er í eigu ríkisins. Það hefur náttúrulega einokun á starfsemi sinni, algera einokun á þessu svæði. Hver býður upp á þjónustu þarna annar en Landssíminn? Enginn. Og menn eru algerlega ofurseldir því af hvaða gæðum þessi þjónusta er þegar kemur út á þessi svæði.

Ég tel að það sé stórlega gagnrýnivert hvernig Landssíminn hefur t.d. verið að hringla með reglur sínar, breyta þátttakendafjölda hvað varðar tengingu staða við ADSL-þjónustu og annað í þeim dúr. Og það hefur bitnað aftur og aftur á minni þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni. Ráðherra verður að gera betur en þetta aumingjalega svar sem hér kom áðan.