Lega Sundabrautar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:37:49 (1246)

2003-11-05 15:37:49# 130. lþ. 21.10 fundur 176. mál: #A lega Sundabrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör en því miður svaraði hann ekki beint þeirri fsp. sem ég lagði fyrir hann. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er ekkert því til fyrirstöðu að Skipulagsstofnun taki tvær leiðir í umhverfismat. Það er ekkert því til fyrirstöðu lagalega. Ég hvet hæstv. ráðherra til að láta gera umhverfismatið á báðum leiðunum og spyr hann hvort hann hyggist gera það, sérstaklega í ljósi þess að þessar tvær leiðir eru mikið í umræðu. Menn gætu þá tekið afstöðu til þess hvor leiðin skuli farin eftir umhverfismatið.

Vissulega er það þannig að við ættum að taka lán til þessara framkvæmda eins og annarra framkvæmda. Ég er alveg sammála því sem hér kom fram áðan í stuttri athugasemd frá hv. þm. Helga Hjörvar, að það á ekki að rukka höfuðborgarbúa sérstaklega fyrir að aka þessa leið eða aðra sem velja þessa leið. Aftur á móti er hægt að taka lán og borga það síðan til baka miðað við notkun. Þá væri hægt að borga þetta fljótar niður og fara ytri leiðina sem hefur alltaf verið þyrnir í augum stjórnvalda vegna þess að hún er aðeins dýrari.

Ég vil minna á að það hefur oft orðið okkur dýrkeypt að fara ódýrari leiðir í vegaframkvæmdum. Það kemur niður á okkur síðar. Og ég gæti nefnt nokkur dæmi um það en ég hef ekki tíma til þess núna.

En mun hæstv. ráðherra, í ljósi umræðunnar hér, láta fara fram umhverfismat á báðum leiðunum? Það er ekkert því til fyrirstöðu að öðru leyti en að vilji ráðherrans til þess komi fram.