Lega Sundabrautar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:39:50 (1247)

2003-11-05 15:39:50# 130. lþ. 21.10 fundur 176. mál: #A lega Sundabrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Það er þannig í lífinu að menn verða nú að gera upp á milli barna sinna á stundum (Gripið fram í: Ekki áður en þau fæðast.) en það er skylda Vegagerðarinnar í þessu tilviki að leggja til þá leið, í þessu tilviki Sundabraut, sem Vegagerðin telur að falli best að verkefninu. Henni ber að velja þá leið sem Vegagerðin telur að sinni best því hlutverki að anna umferðinni á þessu svæði. Þannig þarf auðvitað ekki að vefjast fyrir hv. þingmönnum að hin eðlilega niðurstaða í þessu máli er að Vegagerðin leggi til þá leið sem hún telur helst koma til greina og hún sé borin saman við þann kost sem næstur stendur, þá að mati Vegagerðarinnar.

Stóra málið í þessu er að borgaryfirvöld, sem fara með skipulagsmálin, hafa ekki gert upp hug sinn. Þau hafa ekki komist að niðurstöðu. Þau hafa ekki tekið afgerandi afstöðu til einnar tillögu. Það er ekki hægt að gera þá kröfu til samgrh. að hann taki fram fyrir hendurnar á borgaryfirvöldum, hvað þá Vegagerðinni, í þessu efni. Aðalatriðið er að þessir aðilar ljúki sínu verki.

Það er hins vegar engin þræta í gangi eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir var að tala um að væri að tefja þetta mál. Í gangi er eðlilegt undirbúningsferli. Þetta er flókið viðfangsefni og engin deila í gangi sem tefur þetta mál. Ég vil bara undirstrika það en vonast til að sem allra fyrst fáist niðurstaða þannig að umhverfismatið geti farið fram á þeirri leið sem fyrir valinu verður af hinum lögformlega aðila og samanburðurinn gerður.