Framkvæmdir Landsvirkjunar í Vonarskarði

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:45:17 (1249)

2003-11-05 15:45:17# 130. lþ. 21.17 fundur 63. mál: #A framkvæmdir Landsvirkjunar í Vonarskarði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt í fyrsta lagi: Hvaða upplýsingar hefur umhverfisráðuneytið um framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar í Vonarskarði á árum áður þegar gerð var tilraun, að því er virðist, til að veita vatni úr upptakakvíslum Skjálfandafljóts suður yfir vatnaskil í Köldukvísl?

Því er til að svara að þær framkvæmdir Landsvirkjunar í Vonarskarði sem óskað er upplýsinga um munu hafa átt sér stað árið 1980, eða tíu árum fyrir stofnun umhverfisráðuneytisins, og engar upplýsingar liggja í umhvrn. um framkvæmdina.

Í öðru lagi er spurt: Hafði Landsvirkjun tilskilin leyfi til þessara framkvæmda?

Því er til að svara að upplýsingar sem ráðuneytið hefur fengið um málið benda til þess að ekki hafi verið leitað eftir leyfi fyrir framkvæmdinni og opinberar stofnanir hafi aðeins frétt af framkvæmdinni eftir að henni var lokið. Hvorki var leitað til Náttúruverndarráðs né skipulagsstjóra ríkisins vegna þessarar framkvæmdar.

Í ársskýrslu Landsvirkjunar árið 1980 er fjallað um þessa framkvæmd sem ráðist var í vegna óhagstæðs vatnsbúskapar áranna á undan til þess að veita vatni í Þórisvatn. Í ársskýrslunni segir, með leyfi forseta:

,,Gerðir voru tveir garðar í Vonarskarði og náðist þar nokkurt jökulvatn sem að öðrum kosti hefði mest runnið til norðurs.``

Það virðist vera að hluti garðanna hafi rofnað þegar fyrsta veturinn. Mótæli bárust frá veiðiréttareigendum norðan lands vegna framkvæmdarinnar strax um haustið. Auk þess mótmælti Búnaðarfélag Aðaldæla framkvæmdum í Vonarskarði sumrin 1980 og 1981 í bréfi til stjórnar Landsvirkjunar, dagsettu 4. maí 1982, og óskaði eftir því að Landsvirkjun fjarlægi mannvirkin eins fljótt og kostur sé svo vötnin geti runnið í sínum fyrri farvegi.

Í þriðja lagi er spurt: Kemur til greina að umhverfisráðuneytið beiti sér fyrir því að verksummerki um þessar framkvæmdir verði afmáð?

Því er til að svara að ekki hefur komið fram beiðni um að fjarlægja þessi verksummerki og ekki er ráðgert af okkar hálfu að fara í slíkt.