Vistferilsgreining

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:07:54 (1254)

2003-11-05 18:07:54# 130. lþ. 21.16 fundur 61. mál: #A vistferilsgreining# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:07]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég geri ráð fyrir því að stefna íslensku ríkisstjórnarinnar með tilliti til sjálfbærrar þróunar geri það að verkum að stjórnvöld séu í auknum mæli að fá mál af þessu tagi upp á sitt borð. Til vitnis um það er umhverfisstefna í ríkisrekstri sem mér finnst satt að segja að ætti að leggja meiri áherslu á að framfylgja. En eins og kunnugt er höfum við fengið úttekt Ríkisendurskoðunar á þeirri umhverfisstefnu sem í orði kveðnu á að vera við lýði og mér finnst rétt að ítreka það hér að umhverfisstefna í stóru sem smáu kemur stjórnvöldum við þannig að ég held að við séum að tala hér um hluti sem vaxa af sama meiði, þ.e. að sjálfbærni matvælaframleiðslu á Íslandi sé málefni sem stjórnvöld eigi að taka að hjarta sínu og leggja rækt við, hvetja til þess að fyrirtækin á markaði nýti sér umhverfisvæna tækni í auknum mæli. Ég minni í því sambandi á þál. sem var samþykkt hér á Alþingi í mars 1999 þar sem Alþingi ályktaði að stefna bæri að því að matvælaframleiðsla á Íslandi skyldi vera á forsendum sjálfbærrar þróunar. Þar voru meira að segja tímatakmörk á, þ.e. það var gert ráð fyrir að matvælaframleiðslan á Íslandi skyldi vera á forsendum sjálfbærrar þróunar og markmiðinu yrði náð fyrir árið 2003.

Ég tel að hér sé hreyft máli sem stjórnvöld þurfa að hafa vakandi auga með en ég ítreka þakkir mínar til hæstv. umhvrh. fyrir svörin.