Stofnun hönnunarmiðstöðvar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:19:27 (1258)

2003-11-05 18:19:27# 130. lþ. 21.13 fundur 96. mál: #A stofnun hönnunarmiðstöðvar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:19]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þetta svar þó að hún hafi ekki alveg svarað þeim spurningum sem ég beindi til hennar. En ég heyri að við erum sammála um mikilvægi hönnunar og gildi fyrir íslenska framleiðslu og um það að hönnun sé vanmetin í atvinnulífinu.

Ég spurði hæstv. ráðherra um það hvenær hún hygðist koma hönnunarmiðstöð á laggirnar. Ég heyri að það er mikill vilji hjá henni, það er áhugi í iðnrn. og þau eru að kanna ýmsa kosti en hönnuðir eru náttúrlega mjög óþreyjufullir og hafa beðið lengi, eins ég rakti í fyrri ræðu minni. Þetta hefur verið lengi í vinnslu í iðnrn. og mig langar til að vitna í álit meiri hluta iðnn. þegar fjallað var um stefnu ríkisstjórnar í byggðamálum. Þar benda þeir á að Írar hafi komið slíkri hönnunarmiðstöð á stofn fyrir nokkrum árum og markaðs\-átak á hennar vegum er talið hafa skilað söluverðmæti er nemur tíu milljörðum kr. árlega. Það er því geysilega mikið hagsmunamál að koma á stofn hönnunarmiðstöð, og ég spyr hæstv. ráðherra: Getur hún ekki upplýst okkur nokkuð frekar um það hvenær megi gera ráð fyrir að hönnunarmiðstöð verði að veruleika og kannski upplýst okkur aðeins frekar um það undir hvaða formerkjum það verður? Hún talaði hér um að hún væri að kanna ýmsa kosti. Hvaða kostir eru í stöðunni varðandi hönnunarmiðstöð á Íslandi sem menn hafa lengi beðið?