Einkavæðing orkuveitna og orsakir rafmagnsleysis

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:26:49 (1261)

2003-11-05 18:26:49# 130. lþ. 21.14 fundur 122. mál: #A einkavæðing orkuveitna og orsakir rafmagnsleysis# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í upphafi vil ég taka fram að samkvæmt nýrri skipan raforkumála sem var innleidd með nýjum raforkulögum á vorþingi var ekki verið að hrófla við eignarhaldi orkuveitna, en þær eru að öllu leyti í eigu ríkisins og sveitarfélaga í landinu. Samkvæmt hinum nýju lögum verða dreifing og flutningur raforku áfram háð sérleyfi og undir virku eftirliti Orkustofnunar. Hið aukna frjálsræði sem lögin hafa í för með sér snýr einvörðungu að framleiðslu og sölu raforku.

Rétt er að benda á að setning raforkulaga, nr. 65/2003, átti sér töluverðan aðdraganda en segja má að undirbúningur þeirrar lagasetningar hafi hafist á árinu 1996. Á vegum ráðuneytisins og nefnda sem starfað hafa á vegum þess hafa þessi mál verið könnuð eins og frekast er kostur. Frv. það sem varð að raforkulögum, nr. 65/2003, í vor hafði því hlotið vandaðan undirbúning.

Varðandi það hvort ráðuneytið hafi kannað reynslu af markaðs- og einkavæðingu erlendis nægir að benda á fylgigögn frv. sem síðan varð að lögum. Frv. fylgdu ýmsar skýrslur um reynslu annarra ríkja af auknu frjálsræði á raforkumörkuðum. Má þar m.a. nefna skýrslu þar sem fjallað var um reynslu Kaliforníubúa af markaðsvæðingu. Telja verður afar ólíklegt að hér gætu komið upp viðlíka vandræði og áttu sér stað í Kaliforníu enda aðstæður hér á landi allt aðrar.

Þá er rétt að geta þess að mikil vinna hefur verið lögð í það af hálfu starfsmanna iðnrn. og Orkustofnunar að kynna sér reynslu annarra þjóða af auknu frjálsræði á raforkumarkaði. Hefur einkum verið horft til annarra Norðurlanda en einnig til enn annarra landa, s.s. Bretlands og Írlands. Við þessa vinnu hefur m.a. verið horft til þeirra þátta sem fyrirspyrjandi nefnir, þ.e. verðþróunar, afhendingaröryggis og áhrifa á neytendur. Þá má nefna að íslensk orkufyrirtæki hafa um nokkurt skeið tekið þátt í alþjóðlegum samanburðarverkefnum þar sem m.a. er lagður mælikvarði á árangur þeirra með tilliti til afhendingaröryggis. Niðurstaða slíks samanburðar, til að mynda hvað flutningskerfi varðar, hefur verið mjög jákvæð fyrir Ísland, og ekki er líklegt að samkeppni í vinnslu og sölu breyti neinu þar um.

Hvað varðar síðari spurninguna er henni svarað með þessum hætti: Ekki eru uppi áform um sérstakar rannsóknir á vegum íslenskra stjórnvalda á orsökum rafmagnsleysisins í Evrópu og Bandaríkjunum sem fyrirspyrjandi vitnar til. Hins vegar vil ég benda á að á fundi norrænu orkumálaráðherranna í Gautaborg í lok september var ákveðið að hafa frumkvæði að því að kanna orsakir rafmagnsleysisins í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi nýlega. Í tengslum við þetta verður einnig litið til orsaka rafmagnsleysisins víða um heim. Stefnt er að því að fyrstu niðurstöður verði tilbúnar í byrjun desember og við munum að sjálfsögðu fylgjast með þessu starfi og taka þátt í því, a.m.k. fylgjast með og væntanlega geta niðurstöðurnar orðið gagnlegar fyrir okkur Íslendinga.

Af því að ég hef svolítið meiri tíma vildi ég gjarnan vitna til skýrslu sem unnin var af Evrópusambandinu og tengist þessu nýja fyrirkomulagi, þessu frjálsræði á markaðnum. Þar var farið mjög nákvæmlega yfir reynslu þeirra þjóða sem höfðu breytt fyrirkomulagi sínu og ef ég má, með leyfi forseta, lesa aðeins úr skýrslunni:

,,Af þeim ríkjum sem eru komin með fulla opnun eru 72% þeirra með lækkandi raforkuverð en samsvarandi hlutfall er 42% fyrir þau ríki sem ekki hafa ákveðið hvenær full opnun næst. Ekkert landanna sem er með fulla opnun hefur verið með hækkandi verð á þessu tímabili en 25% þeirra ríkja sem ekki hafa ákveðið fulla opnun.

Þau ríki sem opnað hafa markaðinn að fullu koma því best út hvað varðar þróun raforkuverðs á undanförnum árum en þau ríki sem ákveðið hafa að stefna að fullri opnun koma einna verst út, eða 17% þeirra eru með lækkandi verð en 39% með hækkandi verð.``

Ég held því fram að þetta fyrirkomulag sem við höfum tekið upp á Íslandi og er smátt og smátt að taka gildi hafi sýnt sig að vera frekar til þess að lækka raforkuverð og þó enn meira til fyrirtækja en til neytenda í mörgum löndum. Ég tel að það sé líka jákvætt ef fyrirtæki geta framvegis náð því að lækka þennan kostnað í rekstri sínum.