Einkavæðing orkuveitna og orsakir rafmagnsleysis

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:34:14 (1263)

2003-11-05 18:34:14# 130. lþ. 21.14 fundur 122. mál: #A einkavæðing orkuveitna og orsakir rafmagnsleysis# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:34]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það kemur mér ekki á óvart að hv. þingmaður sjái þetta dálítið svart en svo er því ekki farið með þá sem hér stendur. Ég get hins vegar ekki lofað því að alltaf verði allt í himnalagi. Það er mjög erfitt að taka ábyrgð á því því að vissulega getur alltaf eitthvað gerst sem kemur upp óvænt.

Hv. þm. notaði einmitt orðið einkavæðingu í þessu sambandi. Það hefur verið mjög mikið um að ruglað sé saman hugtökunum einkavæðing og markaðsvæðing. Það var einmitt það sem kom fyrir þegar við fengum hér gest frá Kaliforníu, mann sem hafði reynslu af raforkumálum. Á honum var tekið mikið mark hér, mörg viðtöl við hann tekin og hann hafði sögu að segja sem var ekkert sérstaklega falleg. En í ljós kom að margt af því sem kom fram var neikvætt vegna þess að ekki var þýtt rétt. Það var verið að blanda saman einkavæðingu og markaðsvæðingu endalaust. Við erum að markaðsvæða þetta kerfi hér. Það er ekki verið að einkavæða það.

Í sambandi við Kaliforníu þá freistast ég til þess að koma aðeins inn á það. Þar gerist það að verð á rafmagni fer upp hjá framleiðendum en það er fest í sambandi við smásöluna. Þetta gekk einfaldlega ekki upp. Þess vegna lenda þeir í þessum miklu vandræðum. Við munum ekki taka upp slíkt kerfi á Íslandi. Það er engin hætta á því. Og hvað Noreg varðar þá má segja að það hafi verið vegna þess að þeir eru búnir að gera samninga um svo mikla sölu á rafmagni úr landi að þeir eru uppiskroppa með rafmagn handa heimamarkaði. Það eru skýringar á þessum vandamálum sem hafa verið að koma upp, a.m.k. mörgum hverjum, ekki öllum.

Ég tel að við höfum búið við það á Íslandi að hafa einstakt afhendingaröryggi og fyrirmyndarfyrirkomulag ... (SJS: Var þá ástæða til að breyta því?) Já, það var nefnilega ástæða til þess að breyta því engu að síður. Ástæðan var kannski ekki síst sú að við vorum tilneydd út af tilskipun Evrópusambandsins sem við urðum að innleiða. En ég tel líka að þetta sé gott fyrirkomulag sem við höfum tekið upp.