Vátryggingarsamningar og Viðlagatrygging Íslands

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:36:50 (1264)

2003-11-05 18:36:50# 130. lþ. 21.15 fundur 117. mál: #A vátryggingasamningar og Viðlagatrygging Íslands# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:36]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Öllum eru ofarlega í minni jarðskjálftarnir sem urðu á Suðurlandi 17. og 21. júní árið 2000 þegar fjöldi fólks varð fyrir verulegu eignatjóni. Fljótlega eftir að farið var að meta tjónið kom í ljós að verulegur munur er á brunabótamati sambærilegra eigna milli svæða eða sveitarfélaga og jafnvel sambærilegra eigna innan sama svæðis. Bætur vegna náttúruhamfara eins og jarðskjálfta eru greiddar af Viðlagatryggingu Íslands og við ákvörðun bóta vegna tjóna sem Viðlagatrygging bætir er farið eftir meginreglum vátryggingaréttar samanber 12. gr. reglugerðar nr. 83/1993, um Viðlagatryggingu Íslands.

Gildandi brunabótamat eignar er lögákveðin vátryggingarfjárhæð við upphaf vátryggingarinnar en ekki ákvarðandi varðandi tjónabótafjárhæð. Þannig getur bótafjárhæð verið lægri en brunabótamat en það er þó alltaf hámark brunabótafjárhæðar. Tilkvaddir matsmenn eiga því samkvæmt reglugerð að ákveða verðmæti vátryggðra eigna með hliðsjón af því hvert var raunverulegt verðmæti hennar þegar tjón varð. Við þetta mat skal tekið tillit til verðrýrnunar vegna aldurs, notkunar, minnkandi notagildis eða annarra ástæðna.

Öllum var ljóst áður en jarðskjálftarnir urðu að mikið ósamræmi ríkir á þessu svæði hvað varðar brunabótamat eigna. En fáir áttuðu sig á því að til væru sérstakar fyrningarreglur sem nýttar væru í tilvikum sem þessum. Þetta kom sér mjög illa fyrir þá sem urðu fyrir altjóni í jarðskjálftunum ásamt því að brunabótamatið reyndist í nokkrum tilvikum óraunhæft viðmið. Og í nokkrum tilvikum var um það að ræða að eftir að niðurstaða matsmanna lá fyrir gátu einstaklingar sem urðu fyrir altjóni ekki treyst matinu betur en svo, bæði niðurstöðunum og þeim reglum sem eftir var farið, að þeir urðu að fara í samningaviðræður um það hver greiðslan yrði. Þetta hlýtur að teljast óeðlilegt, þ.e. að þegar iðgjald er greitt af brunabótamati og þegar á reynir þá sé það í raun ekki marktæk viðmiðun þegar um náttúruhamfarir er að ræða, þ.e. ekki að sama skapi og þegar um brunatjón er að ræða.

Á síðasta ári og reyndar frá árinu 2000 höfum við nokkrir hv. þm. lagt fram frv. þess efnis að farið verði í endurskoðun á lögum um vátryggingarsamninga og Viðlagatryggingu Íslands. Það frv. fékk ekki afgreiðslu úr nefnd og því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur verið unnið að endurskoðun laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, með síðari breytingum, og laga um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, með síðari breytingum? Ef svo er, hver var niðurstaða þeirrar endurskoðunar? Ef ekki, mun ráðherra þá beita sér fyrir heildarendurskoðun þessara laga?