Öryggismál sjúklinga

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:08:28 (1276)

2003-11-05 19:08:28# 130. lþ. 21.19 fundur 161. mál: #A öryggismál sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:08]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Mér kom ekki til hugar að ætla að fyrirspyrjandi bæri fram fyrirspurnina vegna einhvers sérstaks vantrausts á íslenskum heilbrigðisstarfsmönnum. Mér kom það ekki til hugar.

Því miður er það þannig að hryggileg mistök hafa orðið í heilbrigðisþjónustunni. Hv. fyrirspyrjandi rakti að það hefur leitt til þess m.a. að menn hafa verið sviptir lækningaleyfi og það eru þung spor að gera það. Ég hef gert það á mínum ferli sem heilbrrh. Það er allt til vinnandi að koma í veg fyrir slíka hryggilega atburði sem verða. Þó geld ég aðeins varhuga við þessari frétt. Við þurfum auðvitað að rannsaka aðstæður okkar hér á landi. Ég er ekki viss um að við getum heimfært þessar tölur algerlega upp á okkur, vonandi ekki. En við þurfum að kanna það betur.

Varðandi svo hlutverk landlæknisembættisins þá er ég þeirrar skoðunar að það eigi að fást við þessar rannsóknir. En þeir geta kallað til aðra aðila og þeir geta styrkt sína starfsemi með utanaðkomandi aðilum. Ég hef ekkert á móti því. En mér finnst dálítil tvöföldun vera í því að skipa lögskipaða nefnd við hliðina á landlæknisembættinu til að kanna það sem er hlutverk landlæknisembættisins samkvæmt lögum.