Kynfræðsla í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:11:08 (1277)

2003-11-05 19:11:08# 130. lþ. 21.20 fundur 188. mál: #A kynfræðsla í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi BrM
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:11]

Fyrirspyrjandi (Brynja Magnúsdóttir):

Virðulegi forseti. Kynfræðsla er mikilvægur liður í baráttunni gegn kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum en ein og sér dugar hún skammt. Langflest ungmenni byrja að stunda kynlíf í lokabekkjum grunnskóla eða fyrstu bekkjum framhaldsskóla og tölfræðin segir að einungis um 60% ungmenna noti getnaðarvarnir við fyrstu kynmök sem er engan veginn nógu gott. Fjöldi unglingaþungana er með því hæsta á Íslandi af öllum Norðurlöndunum og svo mætti lengi telja af hinni neikvæðu tölfræði. Í stað þess er betra að horfa á hvað hægt sé að gera til þess að snúa þessari þróun við.

Í framhaldsskólum er kjörið tækifæri til þess að ná til ungmennanna. Með því að hafa fagaðila innan veggja skólans er hægt að nálgast viðfangsefnið mun betur en gera út af örkinni einu sinni á ári vaska fræðslusveit kynheilbrigðis og kynímyndar.

Herra forseti. Með jafnri og stöðugri fræðslu um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir og með jöfnu aðgengi að ráðgjafa eða nokkurs konar skólahjúkrunarfræðingi er beinlínis hægt að spara í heilbrigðiskerfinu. Þumalputtareglan er víst að hver króna sem sett er í forvarnir og fræðslu spari 10 kr. Þessir fagaðilar sem væru staðsettir innan veggja framhaldsskólanna sæju um ráðgjöf og fræðslu til ungmennanna. Hægt væri að leita til þeirra með ýmsar spurningar. Hægt væri að bóka tíma hjá þeim til viðtals en líka hægt að labba beint inn og setjast í spjall. Þessir fagaðilar mundu einnig hafa leyfi til þess að dreifa smokkum og þá kemur að seinni spurningu minni.

Ég tel að smokkar á Íslandi kosti of mikið miðað við mikilvægi og einfaldleika. Þeir eru ein algengasta getnaðarvörnin á Íslandi. Í stuttri athugun minni í einu apóteki bæjarins reiknaðist mér til að einn smokkur kosti um 80 kr. og pakki af þeim rúmlega 1 þús. kr. Og til að nefna ójafnrétti þá kostar einn kvensmokkur rúmlega 200 kr. En það er nú ekki umræðuefnið hér.

Ungmenni 15--20 ára eru flest byrjuð að stunda kynlíf. Það verður að viðurkennast en ekki er forðast að nefna. Þau munu þurfa að nota getnaðarvarnir. Um 40% þeirra gera það þó ekki við fyrstu kynmök og má því spyrja sig, af hverju, virðulegi forseti. Er það feimni eða hræðsla við að nálgast getnaðarvarnir? Er það kostnaðurinn?

Þessi málefni hafa verið rædd á hinu háa Alþingi. Till. til þál. um unglingamóttöku og getnaðarvarnir var 18. apríl 2002 vísað til ríkisstjórnar til afgreiðslu. Og hver er staða hennar núna? Hv. þm. Ásta Möller er svo með fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. þar sem hún innir eftir gangi mála varðandi heilsugæslu í framhaldsskólum. Svo virðist sem mikið sé spurt og eitthvað sé um svörin. En hvar er svo framkvæmdin, herra forseti?

Aðgengi ungmenna að fagaðila, fræðsla um getnaðarvarnir og niðurgreiðsla á smokkum og helst öllum getnaðarvörnum er mikilvægt úrlausnarefni. Því spyr ég hæstv. heilbrrh.:

1. Kemur til álita að auka fræðslu um forvarnir og kynheilbrigði í framhaldsskólum þannig að nemendur hafi greiðan aðgang að fagaðila í skólanum?

2. Telur ráðherra koma til álita að hið opinbera greiði niður smokka handa fólki á framhaldsskólaaldri?