Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:33:53 (1286)

2003-11-05 19:33:53# 130. lþ. 21.21 fundur 150. mál: #A Jöfnunarsjóður sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:33]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Sá þingmaður sem hér stendur er ekki sérstakur talsmaður jöfnunarsjóðs og telur raunar að aldrei verði settar reglur fyrir jöfnunarsjóðum sem fullnægi réttlætinu. Að mörgu leyti væri heppilegra að sveitarfélögunum væri tryggt svigrúm til tekjustofna sjálfra en að vera með sjóð af þessu tagi. Hitt tel ég að sé augljóst eftir fundi okkar í fjárln. með sveitarstjórnum hringinn í kringum landið að þessar breytingar hafi borið of brátt að. Við höfum dæmi um sveitarfélög þar sem helmingur teknanna kemur úr jöfnunarsjóði og nærfellt helmingur þeirra tekna hefur glatast við þær breytingar. Það er auðvitað allt of mikið högg fyrir eitt sveitarfélag til að taka yfir ein áramót og allt of lítill aðdragandi að svo veigamiklum breytingum.

Ég fæ ekki betur séð af ræðum félmrh. og fjmrh., einkum þó á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í dag, en að til standi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að horfast í augu við þennan vanda og fjmrh. hafi verið að boða að spýta eigi 700 millj. kr. inn í jöfnunarsjóðinn og er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé réttur skilningur.