Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:37:37 (1288)

2003-11-05 19:37:37# 130. lþ. 21.21 fundur 150. mál: #A Jöfnunarsjóður sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:37]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég er ósammála hv. þm. Helga Hjörvar um að jöfnunarsjóðurinn megi missa sín. Ég tel að hann sé afar mikilvægt tæki og mörg sveitarfélög í landinu ættu sér tæpast tilverugrundvöll án hans, enda er eins og ég kom inn á í svari mínu áðan úthlutun hans um 10 milljarðar á þessu ári.

Það er rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar vitnaði til að fjmrh. og sá er hér stendur, félmrh., eiga í viðræðum við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um stöðu jöfnunarsjóðsins. Síðasti fundur okkar, og svo að ég vitni beint í orð fjmrh., lauk í vinsemd en ágreiningi og nýr fundur hefur ekki verið boðaður en hann verður haldinn.

Reglur jöfnunarsjóðs eru hins vegar ekki meitlaðar við stein og þeim var seinast breytt í náinni samvinnu og samráði við sveitarfélögin. Við getum tekið þær reglur upp aftur. Ég hef sagt að ég er tilbúinn til þeirrar vinnu í samráði við sveitarfélögin. Það er því ekkert til fyrirstöðu. Þessar breytingar voru hins vegar, og ég ítreka það, gerðar í samvinnu og samráði við sveitarfélögin, þær voru rækilega kynntar á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnunni og víðar.

Án þess að ég ætli mér að gera mikinn ágreining við hv. fyrirspyrjanda, Margréti Frímannsdóttur, um stöðu mála í Sandgerði sérstaklega, þá vil ég upplýsa að þar kunna að blandast saman breytingar sem voru gerðar á álagningarstofni fasteigna varðandi Flugstöðina í Leifsstöð þar sem álagningarstofninn breyttist mjög rækilega, en ég sé að fyrirspyrjandi hristir höfuðið og kannski á þetta ekkert sameiginlegt en þetta er ein af þeim ástæðum að Sandgerðisbæ hefur verið ofgreitt og mun verða krafinn um endurgreiðslu í sátt og samlyndi við sveitarfélagið.