Forsjárlausir foreldrar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:47:02 (1291)

2003-11-05 19:47:02# 130. lþ. 21.22 fundur 220. mál: #A forsjárlausir foreldrar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni fyrir að vekja máls á þessu máli öllu saman. Ég furða mig á því að ekki skuli hafa verið gerð nein úttekt á félagslegri stöðu forsjárlausra foreldra og að ekki séu til tölur yfir hversu margir þeir eru.

Þetta mál hefur margsinnis komið hér til umræðu, sérstaklega staða forsjárlausra feðra og hveru slæm hún er. Meðal annars hef ég margoft lagt til að þeir fái húsaleigubætur ef þeir eru með börn hjá sér því að lögin um húsaleigubætur eru þannig að þeir fá ekki barnahlutann þó að þeir séu jafnvel jafnmikið með börnin og mæðurnar. Félagsleg staða þessara feðra er mjög slæm. Þeir hafa margir komið til mín í viðtalstíma og þeir bera sig mjög illa þannig að það er verulega brýnt að gera úttekt á félagslegri stöðu þeirra og kippa í liðinn svona málum eins og með húsaleigubæturnar þannig að þeir forsjárlausu foreldrar sem leigja fái húsaleiguhluta barnsins líka.