Forsjárlausir foreldrar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:48:19 (1292)

2003-11-05 19:48:19# 130. lþ. 21.22 fundur 220. mál: #A forsjárlausir foreldrar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:48]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Það kom mér reyndar ekki á óvart að þessar upplýsingar væru ekki til. Ég gat ekki aflað þeirra þegar ég fór þessa leið. Ég tel að hæstv. félmrh. hafi tekið vel í það að gerð verði úttekt sem væri nauðsynlegur grunnur til þess að geta tekið á þessu máli. Ég held að hér séum við með miklu alvarlegra félagslegt vandamál í höndunum en nokkurn grunar eða menn gera sér grein fyrir. Það er aldeilis óviðunandi að við séum bara með í allra næsta nágrenni þinghússins fjölda manna sem búa við félagslegar aðstæður í húsnæði sem er ekki nokkrum manni boðlegt.

Þó svo að þessi hópur afli tekna, eins og ég sagði frá áðan, og dragi inn kannski 100 þús. kr. er þetta ekki hægt ef menn eru með greiðslubyrði upp á 45 þús. Þessi staða gengur ekki upp og hún leiðir til enn verri hluta vegna þess að í mörgum tilfellum sem ég hef fengið ábendingar um er þetta undirrót þess að menn bogni. Karlmenn bogna og gefast upp og það leiðir til óreglu, drykkjuskapar og enn þá meiri vandræða. (ÁRJ: Og bitnar á þeim sem ...)

Við erum hér að tala um stóran hluta íslenskra þegna þar sem ráðherra gefur það upp að um á tólfta þúsund karlmenn sé að ræða, að vísu miklu færri konur, það eru ekki nema 429 konur. En ég heyri að hæstv. félmrh. tekur vel í að fara ofan í saumana á þessum málum. Það eru margar leiðir til að leiðrétta kúrs þarna, við getum farið ofan í það á þeim grunni þegar hann er fyrir lagður, t.d. í gegnum skattkerfið og margar aðrar leiðir má skoða, alls konar framlög og bætur, t.d. hvað varðar húsnæðismál. En það er seinni tíma músík. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góðar undirtektir og ágæt svör.